Fara í efni

Verkefni skoðunarstofa í sjávarútvegi flytjast til MAST

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


 
  Þann 1. mars n.k. flytjast eftirlitsverkefni faggiltra skoðunarstofa í fiskvinnslu og útgerð til Matvælastofnunar. Er þá lokið kafla í sögu matvælaeftirlits í landinu sem staðið hefur yfir í tæpa tvo áratugi. Þessi kafli er um margt merkilegur því þarna steig Ísland það skref að fela einkareknum skoðunarstofum að annast reglubundið eftirlit með framleiðslu sjávarafurða, fyrst allra landa og í raun eina landið sem hefur einkavætt slíkt eftirlit að því marki sem hér var gert. Upphaf þessa kafla markast af því þegar Ríkismat sjávarafurða var lagt niður 1. janúar 1993. Þá voru sett lög um nýtt fyrirkomulag eftirlits með sjávarafurðum. Með þeim var mörkuð ný stefna í eftirliti með framleiðslu sjávarafurða en eftirlit með sjávarútvegsfyrirtækjum var með lögunum fært til einkarekinna skoðunarstofa sem skyldu lúta yfirstjórn Fiskistofu sem þá var að stíga sín bernskuspor. Skoðunarstofur tóku til starfa ein af annarri, fyrst var skoðunarstofan Rýni, en hún hafði þá sérstöðu að vera hlutafélag í 100% eigu ríkisins, Nýja skoðunarstofan, Skoðunarstofa Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Skoðunarstofa Íslenskra sjávarafurða, Skoðunarstofa Suðurnesja, Skoðunarstofa Norðurlands, Tæknimið, Skoðunarstofan Sýni og Aðalskoðunarstofan. Smám saman grisjaðist úr hópnum, sumar sameinuðust en aðrar heltust úr lestinni.

Samhliða þessum breytingum urðu miklar áherslubreytingar í eðli eftirlitsins. Í stað þess að hafa eftirlit með gæðum framleiðslunnar ásamt lágmarkskröfum til bygginga og búnaðar, var nú eftirlitinu fyrst og fremst beint að fyrirbyggjandi aðgerðum framleiðandans með áherslu á öryggi matvælanna í stað gæða. Hugtök eins og „Eigið innra eftirlit, verklagsreglur og HACCP" tóku nú við.

Og svo varð Ísland aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Sumar skoðunarstofurnar voru í eigu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fljótlega tók að bera á því að erlendar eftirlitsstofnanir höfðu takmarkaða tiltrú á þessu fyrirkomulagi eftirlits við framleiðslu matvæla. Fór svo að á árinu 1996 var gerð krafa um að skorið yrði á hagsmunatengsl á milli eftirlits sog framleiðslu. Þessu mættu íslensk stjórnvöld með því að lögleiða kröfu um faggildingu skoðunarstofanna. Í því fólst m.a. að hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fiskvinnslu var bannað að eiga eða vera aðilar að rekstri stofanna. Tók Fiskistofa þá meira eða minna yfir eftirlitið á meðan skoðunarstofurnar unnu að því að fá starfsemi sína faggilta. Síðla árs 1998 höfðu þrjár stofur hlotið faggildingu og lét þá Fiskistofa þeim eftir hið reglubundna eftirlit. Þetta voru Nýja skoðunarstofan, sem síðar varð hluti af Frumherja, Skoðunarstofan Sýni, sem síðar varð hluti af Aðalskoðun og Skoðunarstofa Suðurnesja, en sú stofa hætti starfsemi skömmu síðar. Starfsemi skoðunarstofanna byggði á samningum milli þeirra og fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækja sem gerðir voru á samkeppnisgrundvelli. Fiskistofa hafði síðan það hlutverk að fylgja eftir athugasemdum skoðunarstofanna og gæta þess að samræmi væri í störfum skoðunarmanna.

Í upphafi árs 2008 var stigið stórt skref til sameiningar matvælaeftirlits í landinu þegar matvælaeftirlitssvið Fiskistofu og Umhverfisstofnunar voru færð undir Matvælastofnun, en tveimur árum fyrr hafði allt eftirlit á sviði landbúnaðar og fóðurframleiðslu verið sameinað í Landbúnaðarstofnun sem nú fékk nafnið Matvælastofnun.

Með lögum nr.143/2009 tók við ný matvælalöggjöf í landinu og tók sá hluti hennar sem fjallar um fisk og fóður, gildi 1. mars 2010. Sá hluti löggjafarinnar sem lýtur að búfjárafurðum tekur hins vegar gildi 1. nóv. 2011. Með lögunum urðu verulegar breytingar á þeim heimildum sem Matvælastofnun hefur til úthlutunar eftirlits til skoðunarstofa. Gera lögin ráð fyrir að stofnuninni sé heimilt að úthluta tilteknum verkefnum til faggiltra aðila. Matvælastofnun skyldi þá tiltaka verkefnin í samningi við viðkomandi skoðunarstofu. Matvælastofnun skyldi síðan standa skil á greiðslum til skoðunarstofanna.

Lögin setja auk þess framkvæmd og fyrirkomulagi eftirlits nokkuð þröngar skorður. ER þar helst að eftirlit skal byggt á hættumati sem þýðir að tíðni eftirlits eða eftirlitsþörf verður misjöfn fyrir mismunandi greinar fiskvinnslunnar innbyrðis og að auki þarf við mat á eftirlitsþörf að taka tillit til aðstæðna í hverju fyrirtæki.

Eftirlitsþörf fyrirtækja verður einnig metin eftir frammistöðu fyrirtækjanna. Getur munur orðið verulegur auk þess sem slöku fyrirtækin munu væntanlega fá viðbótareftirlit í formi eftirfylgni.

Matvælastofnun telur að þetta fyrirkomulag eftirlitsins krefjist aukinnar aðkomu stofnunarinnar til þess að hún hafi raunsanna yfirsýn yfir frammistöðu fyrirtækjanna. Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem allur kostnaður vegna eftirlits með framleiðslu matvæla skal greiddur af framleiðendum sjálfum. Því var það ákvörðun Matvælastofnunar að úthluta ekki eftirlitsverkefnum í sjávarútvegi til skoðunarstofa. Í því felst enginn áfellisdómur á störf eða starfsemi skoðunarstofanna, þvert á móti er margt í uppbyggingu stofanna til eftirbreytni sem Matvælastofnun hefur hug á nýta sér í sínu skipulagi.

Matvælastofnun hefur nú ráðið tvo fyrrum starfsmenn skoðunarstofanna til eftirlitsstarfa. Haukur Bragason starfar við innflutningseftirlit og Kristján Dúi Benediktsson mun starfa við eftirlit með fiskvinnslufyrirtækjum. Auk þeirra hafa verið ráðnir þeir Oddgeir Sigurjónsson, sem mun starfa við eftirlit með sjávarútvegsfyrirtækjum og Jón Ágúst Gunnlaugsson til eftirlits- og ýmissa sérfræðingsstarfa innan fiskvinnslugeirans en að auki mun hann sinna verkefnum seim eiga að stuðla að samræmi í störfum eftirlitsmanna. Þeir Kristján Dúi og Oddgeir eru búsettir á Norðurlandi og munu fyrst og fremst starfa á því svæði.

Að lokum vill Matvælastofnun þakka skoðunarstofum og starfsfólki þeirra fyrr og síðar fyrir þeirra framlag til eftirlits innan sjávarútvegsins. Starfsfólk stofnunarinnar þakkar starfsfólki stofanna fyrir áralangt og ánægjulegt samstarf og óskar þeim heilla á nýjum vettvangi.

Einum kafla í eftirlitssögu sjávarafurða á Íslandi er lokið og nýr kafli tekur við.


Getum við bætt efni síðunnar?