Fara í efni

Veraldarfengurinn viðurkenndur af ESB sem rafrænn hestapassi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  Sem kunnugt er byggir hrossaræktin afkomu sína að miklu leyti á útflutningi reiðhesta og kynbótahrossa sem flest fara til aðildarlanda Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Auk þess er umtalsvert magn af hrossakjöti selt á á markaðssvæði ESB og víðar. Þó hrossakjötið sé fyrst og fremst aukaafurð er það hrossaræktinni afar mikilvægt að geta afsett þau hross sem ekki nýtast til ræktunar eða reiðar. Verðmætasköpun í hrossakjötsframleiðslu var um 400 milljónir árið 2008, auk þeirra umsvifa sem slátrun og vinnsla skapa hér á landi.

Íslenskur landbúnaður býr að mestu við sambærilegt lagaumhverfi og gildir í Evrópusambandinu en því er ætlað að tryggja rekjanleika afurða og matvælaöryggi. Lyfjalöggjöf sambandsins hefur verið innleidd hér á landi og í farvatninu er innleiðing  laga og reglugerða um framleiðslu landbúnaðarafurða, annara en þeirra sem taka til lifandi dýra. Aukið eftirlit hefur nú verið boðað á þessu sviði og er það forsenda þess að útflutningur hrossakjöts verði áfram mögulegur til Evrópusambandsins (sjá grein í Bændablaðinu 14. Janúar 2010, bls. 9, einnig aðgengileg á vef MAST með því að smella hér).

Í Evrópusambandinu er þess krafist að hverjum hesti fylgi  hestapassi, gefinn út af ræktunarsambandi viðkomandi hestakyns í því landi sem hesturinn er fæddur. Auk nákvæmrar lýsingar á hestinum og grundvallar upplýsinga um ætterni, kyn og fæðingardag er gert ráð fyrir skráningu á bólusetningum, tilteknum lyfjameðhöndlunum og  smitsjúkdómum sem hesturinn kann að fá á lífsleiðinni. Einnig gefur hestapassinn færi á að eigandinn ákveði í eitt skipti fyrir öll að hestinum verði ekki  slátrað til manneldis. Hestapassinn fylgir hrossinu við eigendaskipti, flutninga og að lokum í sláturhús og gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja að ekki séu lyfjaleifar í hrossakjöti.

Evrópureglugerðin um hestapassa hefur ekki verið innleidd hér á landi enda vart talið framkvæmanlegt að gefa út hestapassa fyrir öll hross á Íslandi. Skýrsluhaldið í hrossaræktinni er engu að síður mjög gott hér á landi og hafa Bændasamtök Íslands í samvinnu við Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, byggt upp öflugan gagnabanka um öll skráð íslensk hross, www.worldfengur.com  sem einnig er upprunaættbók íslenska hestsins. Bændasamtökin gefa út hestapassa við útflutning hrossa á grundvelli gagnagrunnsins. Nýleg breyting á evrópureglugerðinni um hestapassa gerir þó ráð fyrir að upplýsingar um lyfjanotkun nái a.m.k. 6 mánuði aftur í tímann.

Með aukinni eftirfylgni með skráningu á lyfjanotkun í hross var ákveðið að skráningin skildi vera rafræn og byggð inn í WF enda skilvirkasta leiðin til að koma upplýsingum um biðtíma afurðanýtingar til eigenda, sláturleyfishafa og eftirlitsaðila. Þar sem gert er ráð fyrir að skráning tiltekinna lyfja sé í sjálfan hestapassann var þess farið á leit við Evrópusambandið að gagnagrunnurinn WF, með lyfjaskráningum, yrði viðurkenndur sem rafrænn hestapassi.

Nú hefur þessi viðurkenning fengist og mun sú niðurstaða styrkja hrossaræktina sem útflutningsgrein bæði hvað varðar lífhross og aðrar afurðir.

Tekið skal fram að engin fordæmi eru fyrir rafrænum hestapassa innan ESB og því má segja að WF ryðji brautina og hafi reynst hrossaræktendum öflugt tromp á hendi þegar mikið lá við.


Getum við bætt efni síðunnar?