Fara í efni

Veirusýking staðfest í íslenskum hrognkelsum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Veira sem veldur sjúkdómnum veirublæði (VHS; Viral hemorrhagic septicemia) í fiskum hefur verið staðfest. Greining átti sér stað úr líffærum hrognkelsa af villtum uppruna. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi veirutegund er greind hér á landi. Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum.

Við reglubundið eftirlit og sýnatökur Matvælastofnunar greindi Fisksjúkdómadeild Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum veiruna í hrognkelsum sem voru veidd í Breiðafirði síðla sumars. Hrognkelsin eru hjá Hafró og eru höfð til undaneldis á seiðum sem flytja átti til Færeyja til þjónustu við þarlent laxeldi. Hrognkelsaseiði éta laxalýs af mikilli áfergju sem reynst hefur vel í baráttunni gegn sníkjudýrinu og dregið úr notkun lúsalyfja. Útflutningur slíkra seiða hófst fyrir tæpu ári síðan, en nú verður gert hlé á framleiðslu seiða vegna niðurskurðar og sótthreinsunar á eldisaðstöðu.

Veirublæði er smitsjúkdómur sem greinst hefur í um 80 tegundum fiska um allan heim, algengast þó á norðurhvelinu, bæði í villtu umhverfi og fiskeldi. Veiran var allra fyrst greind í regnbogasilungseldi í Egtved í Danmörku um miðja síðustu öld og var lengi vel þekkt undir nafninu „Egtvedsyge“. Litið er á veirublæði sem alvarlegan tilkynningaskyldan smitsjúkdóm sem ber að útrýma með förgun og eyðingu á smituðum fiski.

VHS-veira tilheyrir Rhabdoviridae-fjölskyldunni og er skipt upp í fjórar arfgerðir. Sumar arfgerðir eru hýsilsérhæfðar og smita einungis eina tegund fiska, á meðan aðrar leggjast á margar tegundir. Það er fyrst og fremst arfgerð 1a sem menn óttast, hún smitar bæði ferskvatns- og sjávarfiska og hefur valdið miklu tjóni í eldi regnbogasilungs erlendis. Aðrar arfgerðir veirunnar greinast fyrst og fremst í sjávartegundum og smita sjaldnast ferskvatnstegundir á borð við laxfiska.

Svo hægt sé að staðfesta arfgerð þeirrar VHS-veiru sem greindist í íslenskum hrognkelsum þarf að senda sýni til tilvísunarrannsóknastofu ESB í veirusjúkdómum lagardýra í Danmörku. Sérfræðingar á Keldum vinna nú að undirbúningi sendingar og er þess vænst að niðurstaða liggi fyrir um mánaðarmótin.


Getum við bætt efni síðunnar?