Fara í efni

Úttekt ESA á eftirliti með kjöt- og mjólkurframleiðslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) kom í eftirlitsheimsókn til íslands 14. – 23. október 2019. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með framleiðslu mjólkur og kjöts sé í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Þrír eftirlitsmenn komu til landsins og heimsóttu framleiðendur á Norður-, Suður- og Suðvesturlandi í fylgd starfsmanna Matvælastofnunar. Heimsóknin var yfirgripsmikil og náði allt frá frumframleiðslu bænda til lokaafurðar í mjólkur- og kjötvinnslum, allflestra búfjártegunda. 

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu. Þar koma fram athugasemdir um að áhættuflokkun Matvælastofnunar á framleiðendum þurfi að vera ítarlegri og að eftirlitsaðilar sem sinna eftirliti með þessum málaflokkum, tímabundið í hlutastörfum, þarfnist aukinnar þjálfunar.  Einnig koma fram efasemdir um örugga notkun eyrnamerkja í nautgripum og sauðfé og um nægjanlegt eftirlit með fjarlægingu á sérstökum áhættuvef nautgripa.  

Bent er á að skerpa þurfi á örverufræðilegum athugunum í mjólkurvinnslum og sláturhúsum og gerð er athugasemd við samræmingarhæfni opinberra rannsóknarstofa.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis, ásamt athugasemdum og leiðréttingum. Vinna við úrbætur er nú þegar hafin.


Getum við bætt efni síðunnar?