Fara í efni

Úttekt ESA á eftirliti með framleiðslu kjúklinga

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti í gær skýrslu vegna úttektar á opinberu eftirliti með alifuglaeldi, einkum alifuglaslátrun og vinnslu alifuglaafurða hér á landi. Úttektin sem fór fram í nóvember 2013 er fyrsta úttekt ESA á þessu sviði eftir að matvælalöggjöf ESB tók gildi hér á landi fyrir búfjárafurðir þann 1. nóvember 2011. Markmið heimsóknarinnar var að kanna hvort opinbert eftirlit með framleiðslu alifuglaafurða væri í samræmi við matvælalöggjöfina.

Í niðurstöðum ESA kemur fram að opinbert eftirlit sé viðhaft í samræmi matvælalöggjöf ESB og að viðeigandi starfsþjálfun eftirlitsmanna hafi verið veitt. Þá hafi gæðastýring og áhættumat í eftirliti verið innleidd. Árétta skal að áhættumiðað eftirlit og aðgerðir yfirvalda og framleiðenda hérlendis hafa skilað heilnæmum, öruggum kjúklingingaafurðum á markað með mun lægri tíðni af smitandi örverum en sést í nágrannalöndum.

Fram kemur í skýrslu ESA að þörf sé á úrbótum í opinberu eftirliti til þess að uppfylla öll skilyrði innleiddra reglugerða. Í skýrslunni er að finna nokkrar athugasemdir. Þar er gerð athugasemd við að starfsfólk sláturhúsa sem annast heilbrigðisskoðun fái ekki nægjanlega þjálfun og að viðvera opinberra eftirlitsdýralækna við heilbrigðisskoðun sé ónóg miðað við kröfur í löggjöfinni.

Matvælastofnun hefur þegar brugðist við þessum athugasemdum ESA og gert tillögur um hvernig ráða eigi bót á þessum atriðum. Gert er ráð fyrir að viðvera opinberra eftirlitsdýralækna verði aukin og að gerð verði áætlun um aukna þjálfun aðstoðarfólks. Jafnframt hefur stofnunin gert aðgerðaáætlun og mun fylgja eftir að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur vegna annarra ábendinga sem fram koma í skýrslunni.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?