Fara í efni

Úttekt á fóðureftirliti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Úttekt á fóðureftirliti

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði úttekt á fóðureftirliti á Íslandi dagana 8. – 17. maí s.l. og hefur nú birt skýrslu um niðurstöður hennar. Megintilgangur úttektarinnar var að kanna hvort opinbert eftirlit með fóðri væri til staðar og hvort það væri framkvæmt í samræmi við löggjöf EES.

Matvælastofnun hefur verið útnefnd sem lögbært yfirvald fóðureftirlits. Stofnunin hefur þróað eftirlitskerfi fyrir opinbert eftirlit, sem byggt er á áhættumati og skriflegum verkferlum sem eiga að tryggja sanngjarna tíðni eftirlitsheimsókna og samræmda framkvæmd.

Í skýrslu ESA er bent á nokkra veikleika í eftirlitskerfinu þar sem ekki var að öllu leyti tekið tillit til áhættuþátta sem kunna að vera í fóðri.

Gerðar eru athugasemdir við innra eftirlit hjá nokkrum fyrirtækjum. Því er m.a. ábótavant hjá fyrirtækjum sem þurrka fóðurefni beint með dísilbrennurum og sérstaklega bent á að ekki voru til skriflegir verkferlar (gæðahandbækur) sem sýna fram á hvernig fyrirtækin koma í veg fyrir að díoxínmengun fari upp fyrir leyfileg  mörk samkvæmt EES löggjöf.

Í skýrslunni eru einnig gerðar athugasemdir við að fóðurverksmiðjur hafa ekki gert tilskyldar athuganir til að tryggja að fullu einsleitni blandna, þ.e. jafna blöndun aukefna í fóðurblöndum. Einnig voru gerðar athugasemdir við að fyrirtækin höfðu ekki virka verkferla til að rannsaka hvort efni eins og hníslalyf berist í fóðurblöndur þar sem þau eiga ekki að finnast. Hníslalyf mega einungis vera í fóðri fyrir kjúklinga og kalkúna í vexti að þrem dögum fyrir slátrun, en mega ekki vera í fóðri fyrir aðrar tegundir.

Þá eru gerðar athugasemdir við að framleiðendur fiskimjöls og lýsis gera ekki tilskyldar rannsóknir á díoxíni í þessum afurðum í samræmi við reglugerðarákvæði. Hliðstæðar athugasemdir eru gerðar við framleiðendur fóðurblandna, þ.e. að ekki eru til verkferlar sem eiga að tryggja að díoxín í fóðurblöndum fari ekki yfir leyfð mörk. Þá vantaði rannsóknir á hráefnum sem og afurðum til að sýna fram á að þessar afurðir væru öruggar með tilliti til díoxíns.

Í skýrslunni kemur einnig fram að ekki hafa öll fyrirtæki sem sjá um sölu á fóðri og fóðurefnum verið skráð hjá Matvælastofnun sem fóðurfyrirtæki og einnig vantar eitthvað uppá að allar starfsstöðvar og verslanir, sem selja fóður fyrir dýr í matvælaframleiðslu séu skráðar hjá Matvælastofnun.

Matvælastofnun hefur þegar brugðist við þessum athugasemdum og unnið með fyrirtækjunum að úrbótum á þessum þáttum í samræmi við tímasetta úrbótaáætlun. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðaukum skýrslunnar.

Lokaskýrsla ESA


Getum við bætt efni síðunnar?