Fara í efni

Úttekt á eftirliti með rekjanleika kjöts og kjötvara

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti í síðustu viku niðurstöðu úttektar stofnunarinnar á rekjanleika kjöts og kjötvara á Íslandi. Í niðurstöðunum eru dregnir fram annmarkar hjá framleiðendum og í eftirliti varðandi rekjanleika hráefna og aukefna og merkingum kjöts og kjötvara. Lagðar eru fram tillögur að úrbótum sem Matvælastofnun vinnur nú áfram með.

ESA framkvæmdi úttekt á eftirliti með rekjanleika kjöts og kjötvara á Íslandi dagana 28. nóvember til 7. desember 2016. Markmið úttektarinnar var að kanna hvort eftirlit Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sé í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Áhersla var lögð á merkingar í tengslum við rekjanleika og notkun aukefna.

Með rekjanleika er m.a. átt við að unnt sé að rekja öll innihaldsefni í gegnum alla matvælaframleiðsluna. Úttekt ESA leiddi í ljós að matvælaframleiðendur reyndust almennt vera með ferla til staðar eða í þróun til að tryggja rekjanleika, en þeir gátu þó ekki allir sýnt fram á að öll þau hráefni og aukefni sem notuð voru við framleiðslu væru rekjanleg. ESA taldi eftirlitsmenn einnig skorta ítarlegri leiðbeiningar um rekjanleika og merkingar. Þá var ekki í öllum tilvikum hægt að rekja innihaldsefni vara á markaði alla leið til framleiðanda þeirra. Jafnframt telur stofnunin að eftirlitskerfið tryggi ekki að fullu að öll fyrirtæki sem komi að kjötframleiðslu séu rétt skráð og samþykkt.

Í niðurstöðum ESA kemur fram að viðkomandi löggjöf hafi verið innleidd í íslenskt regluverk. Eftirlitið skiptist milli Matvælastofnunar annars vegar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hins vegar. Opinbert eftirlitskerfi sé til staðar hjá Matvælastofnun með áhættumiðuðu eftirliti, skráðum verklagsreglum og kynningu á niðurstöðum. Eftirlit sé framkvæmt samkvæmt áætlaðri tíðni með eftirfylgniheimsóknum eftir þörfum. Skipulag eftirlits hafi hins vegar verið mismunandi hjá þeim heilbrigðiseftirlitssvæðum sem heimsótt voru.

Matvælastofnun hefur tekið athugasemdirnar sem settar eru fram í skýrslu ESA til greina og lagt fram tímasetta aðgerðaráætlun sem nú er til skoðunar hjá ESA. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðauka skýrslunnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?