Fara í efni

Útflutningur á lambakjöti til Kína

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur síðustu 3 – 4 ár ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu unnið að gerð samnings um heilbrigðiskröfur og eftirlit með útflutningi lambakjöts frá Íslandi til Kína. Nýlega undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, samninginn fyrir Íslands hönd. Í honum koma fram sérkröfur og skilyrði sem uppfylla þarf varðandi útflutning á lambakjöti til Kína.

Mikilvægustu sérkröfur Kínverja varða riðu. Einungis má flytja til Kína kjöt af lömbum sem fædd eru og alin á riðulausum svæðum og jafnframt eiga sláturhús, kjötpökkunarstöðvar og frystigeymslur að vera á riðulausum svæðum. Tryggja þarf fullkominn aðskilnað lamba af riðusvæðum og þeirra sem koma frá riðulausum svæðum í flutningum og í sláturhúsi. Kjötinu á að halda aðskildu frá öðru kjöti í vinnslu og í geymslum.

Mikil áhersla er á að rekjanleiki sláturlamba og afurða þeirra sé öruggur. Sláturlömbin eiga að vera yngri en 6 mánaða, þegar þeim er slátrað, eigi að flytja kjöt af þeim til Kína.

Önnur skilyrði:

  • Garnaveiki hafi ekki greinst á bænum síðustu 12 mánuði 
  • Afurðastöðvar, sláturhús, stykkjunarstöðvar og frystigeymslur, skulu skráðar á opinberan lista í Kína

Afurðastöðvar sem vilja flytja út lambakjöt til Kína þurfa að sækja um til Matvælastofnunar að komast á opinberan lista yfir afurðastöðvar sem hafa leyfi til að flytja út lambakjöt til Kína. Nánari upplýsingar veitir markaðsstofa Matvælastofnunar.

Matvælastofnun vinnur nú að gerð heilbrigðisvottorða sem byggja á samningnum og þurfa að fylgja hverri sendingu. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?