Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru varðandi höfnun umsóknar um innflutningsleyfi fyrir erlenda hænsnastofna

Matvælaráðuneytið hefur í úrskurði staðfest ákvörðun Matvælastofnunar að hafna umsókn um innflutningsleyfi fyrir tvo erlenda hænsnastofna.

Umsækjandinn sótti um innflutningsleyfi hjá Matvælastofnun fyrir 60 frjó hænsnaegg frá norskum genabanka í þeim tilgangi að koma á fót litlu ræktunarbúi og selja hænur til þeirra sem hafa áhuga á að stunda smábúskap og halda baksgarðshænur sem gæludýr og til eigin eggja- og kjötframleiðslu.

Í samræmi við lög um innflutning dýra óskaði Matvælastofnun eftir umsögn erfðanefndar landbúnaðarins um fyrirhugaðan innflutning frjóeggjanna. Meirihluti erfðanefndarinnar taldi að með innflutningi þeirra stofna sem um ræðir myndu líkur aukast á erfðablöndun við íslenska hænsnastofninn og þar með útþynningu hans. Þá sagði jafnframt í umsögn meirihlutans að innflutningur á stofnum sem eru samnytja íslenska stofninum gæti skapað aukna samkeppni við íslensku landnámshænuna sem gæti leitt til fækkunar stofnsins og að íslenski stofninn væri viðkvæmur stofn sem beri að vernda eftir fremsta megni. Matvælastofnun leitaði eftir frekari áliti erfðanefndarinnar að hvaða leyti innflutningurinn væri meiri ógn við íslenska stofninn en aðrir stofnar sem væru fyrir í landinu og barst viðbótarálit nefndarinnar í kjölfarið þar sem kom fram að þeir hænsnastofnar sem fyrirhugað væri að flytja inn væru í beinni samkeppni við íslensku landnámshænuna hvað varðar nytjar og hlutverk og að innflutningurinn gæti leitt til fækkunar í stofninum og erfðablöndunar.

Matvælastofnun upplýsti aðila málsins um framkomin gögn og gaf honum tækifæri að koma sjónarmiðum á framfæri sem hann gerði. Í kjölfarið tók Matvælastofnun ákvörðun um að hafna því að gefa út innflutningsleyfi og byggði ákvörðun stofnunarinnar á þeim forsendum sem komu fram í umsögn meirihluta erfðanefndar landbúnaðarins.

Í forsendum úrskurðarins segir að Matvælastofnun sé skylt að afla umsagnar erfðanefndarinnar við afgreiðslu umsókna um leyfi til innflutnings af þessu tagi. Nefndin hafi lögbundna aðkomu að innflutningi dýra og umsögn hennar eigi að fela í sér verndunarmat þegar um er að ræða innflutning erlendra stofna búfjártegunda sem eru fyrir í landinu. Ljóst sé að ætlunin löggjafans hafi verið að umsögn nefndarinnar hafi ákveðin áhrif við úrlausn erinda um innflutning nýrra tegunda eða stofna, þrátt fyrir að umsögnin sé ekki bindandi. Verði því að telja líklegt að til þess að Matvælastofnun geti horft fram hjá umsögn erfðanefndarinnar þurfi að liggja fyrir að álit nefndarinnar hafi verið ólögmætt eða að álitið sé efnislega rangt.

Var það mat ráðuneytisins að stofnuninni hefði verið heimilt að byggja mat sitt við afgreiðslu á umsókn um innflutningsleyfi á umsögn erfðanefndarinnar, enda hafi að mati ráðuneytisins ekkert komið fram sem bendir til þess að umsögnin sé efnislega röng eða hún byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?