Fara í efni

Úrskurður vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um vörslusviptingu búfénaðar

Matvælaráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð vegna stjórnsýslukæru eiganda búfénaðar á ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu með vísan til 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013.

Matvælastofnun barst ábending um að aðstæður umráðamanns væri með þeim hætti að engin úrræði væru til þess að tryggja umsjá dýra í hans eigu. Í kjölfar eftirlits hafði stofnunin samband við sveitarfélagið þar sem dýrin voru haldin og í framhaldi var leitað eftir aðstoð til að tryggja umhirðu dýra á bænum. Í kjölfarið tókst að fá umsjónarmann til að sinna dýrunum tímabundið. Þegar umsjónarmaðurinn hafði ekki tök á sinna skyldum sínum lengur og umráðamanni hafði ekki tekist að tilnefna annan umsjónarmann til að taka að sér ábyrgð yfir dýrunum samkvæmt lögum um velferð dýra, var það mat stofnunarinnar að ástandið á bænum væri með öllu óviðunandi, enda var enginn til að hirða um þau, brynna og fóðra. Í kjölfarið svipti stofnunin eigandann fyrirvaralaust vörslum yfir dýrunum á grundvelli 38. gr. laga um velferð dýra.

Kærandi byggði á því að ákvörðun Matvælastofnunar hafi verið ólögmæt, ástand dýranna hefði ekki verið slæmt og að kærandi hefði gefið upp umsjónaraðila til sinna dýrunum. Eftirgrennslan Matvælastofnunar um réttmæti tillagna um umsjónaraðila skiluðu ekki árangri. Engin úrræði eru til staðar innan stofnunarinnar til að hýsa eða sinna búfénaði.

Ráðuneytið mat að skilyrði fyrir fyrirvaralausri vörslusviptingu skv. 38. gr. laga um velferð dýra hafi ekki verið uppfyllt og að stofnunin hafi ekki gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins né ákvæðum upplýsingalaga varðandi skráningu málsgagna er lútu munnlegum samskiptum stofnunarinnar við aðila sem kynnu að geta tekið að sér umsjón með dýrunum í fjarveru eiganda.

Í ljósi úrskurðar ráðuneytisins og ábendinga í skýrslu Ríkisendurskoðunar um að efla samstarf við hagaðila m.a. varðandi úrræði sem grípa þarf til í kjölfar eftirlits hefur Matvælastofnun ákveðið að leita til hagsmunasamtaka, þ.m.t. Bændasamtakanna og dýravelferðarsamtaka, til að setja saman viðbragðslisti yfir aðila sem geta tekið að sér búvörslu ef upp koma neyðartilvik og umráðamanni tekst ekki að tilnefna umsjónarmann með búrekstri. Með slíku samstarfi má betur tryggja lögbundna umhirðu og aðbúnað dýra í landinu.


Getum við bætt efni síðunnar?