Fara í efni

Upprunamerkingar á kjöti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Uppruni kjúklingakjöts hefur verið áberandi í umræðu hérlendis undanfarna daga eftir að fram komu fullyrðingar um að innflutt kjúklingakjöt væri selt sem ferskt í umbúðum íslenskra framleiðenda í verslunum hér á landi.

Heimilt er að flytja inn afurðir alifugla, séu skilyrði þar um uppfyllt. Engin ákvæði eru hins vegar um að merkja skuli uppruna alifugla. Afurðirnar verða að koma frosnar til landsins, en ekkert bannar að frosið kjöt sé uppþítt fyrir sölu, enda er t.d. uppþítt lambakjöt selt í verslunum stærstan hluta ársins.

Þar sem íslenskir neytendur eru vanastir því að kjöt sem er á boðstólum í verslunum sé íslenskt a.m.k. það sem  selt er ófrosið, hafa vaknað spurningar um hvort það sé blekkjandi sbr. 11. grein laga um matvæli, að merkja ekki uppruna innflutts kjöts, sem er pakkað af íslenskum fyrirtækjum.

Því er til að svara að ef enginn uppruni er gefinn í skyn í merkingum og markaðssetningu vörunnar s.s. með texta, myndum eða fána, er merkingin ekki talin blekkjandi hvað uppruna varðar. Heiti og staðsetning fyrirtækja sem eru ábyrg fyrir vörunni segir ekki til um uppruna hennar.

Skylt er að merkja uppruna á nautgripakjöti

Í gildi eru reglur um upprunamerkingar á fersku og frosnu nautgripakjöti skv. reglugerð nr. 968/2011. Þetta eru reglur sem koma frá Evrópusambandinu (ESB) og voru settar þar árið 2000 í kjölfar kúariðumálsins, en voru teknar upp hér á landi þegar Ísland tók upp nýjar EES-reglur um búfjárafurðir haustið 2011.

Reglur um upprunamerkingar á öðru kjöti taka gildi í ESB í desember 2014

Engar reglur hér á landi skylda upprunamerkingar á kjöti, öðru en nautgripakjöti. Samkvæmt reglugerð EB/1169/2011 sem tekur gildi í ESB 13. desember 2014 verður skylt að upprunamerkja ferskt og fryst svínakjöt, kindakjöt, geitakjöt og alifuglakjöt. Á sama tíma verður einnig gert skylt að merkja uppruna aðalhráefnis vöru ef uppruni þess er annar en vörunnar og uppruni vörunnar er gefinn upp. Dæmi: Ef merking á kjötbollum segir að uppruni sé Ísland, en kjötið er erlent, þá verður að merkja hver uppruni kjötsins er eða taka fram að hann sé annar en upprunamerking vörunnar segir til um. Þessi reglugerð verður innleidd hér á landi og sömu ákvæði taka því gildi hér í lok komandi árs.

Eftirlit og ábendingar

Eftirlit með innflutningi og með kjötvinnslum er í höndum Matvælastofnunar, en eftirlit hjá dreifingaraðilum er hjá Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Á vef Matvælastofnunar er hægt að senda inn ábendingar til eftirlitsaðila.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?