Fara í efni

Upplýsingagjöf um viðbætt vatn og íshúð - Eftirlitsáhersla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í ár og á næsta ári (2023-2024) leggur Matvælastofnun sérstaka áherslu á að skoða hvort upplýsingar um viðbætt vatn í matvælum og um nettóþyngd matvæla með íshúð séu gefnar í samræmi við gildandi reglur. Er þetta hluti af landsbundinni eftirlitsáætlun til margra ára (LEMA). Markmiðið er að skoða þessi atriði hjá öllum fyrirtækjum undir eftirliti stofnunarinnar, sem framleiða slík matvæli. Reynist merkingar ekki í samræmi við reglur mun stofnunin gera kröfu um úrbætur. Í lok tímabilsins mun Matvælastofnun birta samantekt á helstu niðurstöðum.

Um matvælaupplýsingar gildir að þessu leyti reglugerð 1294/2014 sem innleiðir reglugerð ESB um matvælaupplýsingar, nr. 1169/2011.

Viðbætt vatn

Kröfur um merkingar á viðbættu vatni í matvælum er að finna í 9., 17. og 18. gr. og VI. og VII. viðauka reglugerðar ESB um matvælaupplýsingar.

Fyrir kjöt, unnar kjötvörur, fisk og aðrar lagarafurðir sem hefur útlit stykkis, sneiðar, bita, flaks eða heillar afurðar gildir að ef viðbætt vatn er meira en 5% í vörunni þá á að tilgreina, í heiti vörunnar, að í henni sé viðbætt vatn. Áherslan í verkefninu er úrbeinað kjúklingakjöt, rækja, humar og hörpudiskur og fisk flök og bitar. Merkingar eins og “með ábata”, “marinerað”, “í legi” o.s.frv. eru ekki fullnægjandi merking á viðbættu vatni skv. áliti Matvælastofnunar.

Íshúð og nettóþyngd

Kröfur um merkingar á nettóþyngd matvæla er að finna í 9. og 23. gr. og IX. viðauka reglugerðar ESB um matvælaupplýsingar og í 4. gr. innleiðingarreglugerðarinnar.

Gefa þarf upp nettóþyngd vöru án íshúðar. Áherslan í verkefninu er lausfrystar kjöt- og fiskafurðir, einkum humar, rækja, hörpudiskur og frosinn fiskur (flök og bitar).


Getum við bætt efni síðunnar?