Um viðhald varnargirðinga
Að gefnu tilefni áréttar Matvælastofnun að stofnunin býr ekki yfir fjárheimildum til viðhalds varnargirðinga. Fjárveitingarnar eru ákvarðaðar og greiddar af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjármagn til viðhaldsins hefur aukist á undanförnum árum og er áætlað að það verði 45 mkr á þessu ári.
Aðkoma Matvælastofnunar að viðhaldi varnargirðinga er forgangsröðun á ráðstöfun fjármuna, þ.e.a.s. hvernig þeim er skipt á varnargirðingar á landinu. Úthlutun fjár til tiltekinna viðhaldsverkefna hefur ekki verið ákvörðuð fyrir árið 2020 og liggur því ekki fyrir hvaða varnargirðingar fá meira eða minna fé en á síðasta ári. Úthlutunin tekur fyrst og fremst mið af sjúkdómastöðu milli varnarhólfa en einnig af ástandi varnarlína hverju sinni.
Áætlað fé til viðhalds varnargirðinga í ár er 45 mkr. Það er ekki skerðing frá því í fyrra. Þá fór kostnaður fram úr áætlun og var alls 48 mkr.
Víða er ástand varnargirðinga ekki gott og ljóst að sum landsvæði koma verr undan vetri en önnur. Varnargirðingar eru nauðsynlegur liður í að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma í dýrum og því er mikilvægt að tryggja fullnægjandi fjármagn til viðhalds þeirra.