Um útflutning til Kína - upplýsingar fyrir útflytjendur
Nú er mikilvægara en nokkru sinni áður að útflytjendur matvæla til Kína undirbúi útflutning vel áður en vörur fara frá Íslandi.
Nokkur skilyrði eru grundvöllur fyrir því að hægt sé að flytja matvæli til Kína:
1. Að framleiðandi sé samþykktur af kínverskum yfirvöldum
2. Að framleiðandi sé með afurðir til útflutnings skráðar í leyfi sitt
3. Að afurð sé á samþykktarlista (á við um lagar- og kjötafurðir, á við um tegund og form afurða)
4. Sendingu skal fylgja heilbrigðisvottorð, útgefið af yfirvöldum
Samþykktir framleiðendur
Frá 1. janúar 2022 hafa allir erlendir framleiðendur matvæla þurft að skrá sig í CIFER áður en þeir hefja útflutning til Kína. Frekari upplýsingar um skráningarferlið má finna á upplýsingasíðu MAST.
Skráning afurða í leyfi framleiðenda
Framleiðendur þurfa að skrá þær vörur sem þeir vilja flytja til Kína með afar nákvæmum hætti í leyfi sitt (í skráningarkerfinu CIFER).
Sú skráning felur í sér að þekkja þarf viðeigandi kínversk tollskrárnúmer (HS/CIQ kóða), latnesk heiti tegundar sem afurðin er unnin úr o.fl.
Framleiðandi hefur eingöngu leyfi til útflutnings til Kína fyrir þeim afurðum sem skráðar eru í CIFER og því mikilvægt að huga vel og tímanlega að skráningum í CIFER.
Það er brýnt að útflytjendur kynni sér vel hvort framleiðendur hafi leyfi fyrir ákveðnum vörum áður en til útflutnings kemur.
Upplýsingar um skráðar afurðir - uppfærð yfirlitssíða fyrir alla
Nýlega var yfirlitssíða um samþykkta framleiðendur uppfærð þannig að allir geta fengið aðgang að upplýsingum um hvaða afurðir framleiðendur hafa skráð í leyfi sitt.
MAST hefur tekið saman leiðbeiningar fyrir útflytjendur og framleiðendur um hvernig hægt er að fletta upp afurðaskráningum framleiðenda og hvetur framleiðendur til þess að nota m.a. þessar upplýsingar þegar útflutningur er undirbúinn. Frekari upplýsingar veitir starfsfólk inn- og útflutningsdeildar.
Samþykktar afurðir frá Íslandi
Eftir sem áður er í gildi listi um samþykktar tegundir og afurðaform fyrir lagarafurðir sem flytja má frá Íslandi til Kína.