Fara í efni

Traust til Matvælastofnunar og matvælaiðnaðar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun nýtur trausts systurstofnunar sinnar í Rússlandi en fulltrúar hennar hafa verið í úttekt á Íslandi síðustu tvær vikur fyrir hönd Tollabandalags Rússlands, Hvíta Rússlands og Kasakstan. Íslensk matvælafyrirtæki fengu einnig góða umsögn. Úttektin beindist að skoðun á verklagi og verkferlum Matvælastofnunar og starfsemi fiskvinnslu- og fiskeldisfyrirtækja, mjólkurbúa og sláturhúsa, auk sauðfjár og kúabúa. Rannsóknastofur Matís og Keldna voru einnig skoðaðar og þóttu búa yfir góðum búnaði og þekkingu til rannsókna á matvælum og dýrasjúkdómum.

Úttektirnar gengu vel og munu endanlegar niðurstöður liggja fyrir í skýrslu úttektaraðila eftir tvo til fjóra mánuði. Þegar hefur þó komið fram að líklegt er að nú verði unnið samkvæmt tvíhliða samkomulagi, byggðu á gagnkvæmu trausti, þar sem Matvælastofnun gerir tillögur um hvaða fyrirtæki geti farið á lista yfir þá sem hafa leyfi til að flytja fisk- og búfjárafurðir til Tollabandalagsins.

Matvælastofnun mun nú hafa samband við fyrirtæki, sem þegar hafa útflutningsleyfi eða hafa óskað eftir slíku leyfi, til að kanna hvort fyrirtækin hafa áfram áhuga á að flytja út vörur til Tollabandalagsins. Stofnunin mun kynna kröfur bandalagsins fyrir fyrirtækjunum og gerð verður úttekt á þeim áður en Matvælastofnun gerir tillögur um að nýjum fyrirtækjum verði bætt á lista yfir samþykkta útflytjendur. Kröfur Tollabandalagsins eru í flestu þær sömu og kröfur í matvælalöggjöf EES, en munurinn felst einkum í öðrum viðmiðum varðandi tilteknar örverur, aðskotaefni og lyfjaleifar.

Ekkert kom fram sem benti til þess að fölsun heilbrigðisvottorða með laxi til Tollabandalagsins mætti rekja til Íslands þó reynt væri að gefa til kynna að um væri að ræða íslenskan lax og íslensk vottorð. Matvælastofnun hefur nú fengið afrit nokkurs fjölda vottorða sem fölsuð hafa verið í nafni hennar og fjögurra íslenskra fyrirtækja, en þau hafa staðfest að þau hafi ekki komið að málum. Óskuðu fulltrúar Tollabandalagsins eftir nánu samstarfi Matvælastofnunar og systurstofnunar hennar í Rússlandi og að komið yrði á rafrænum samskiptum við útgáfu heilbrigðisvottorða til að einfalda ferlið, bæta utanumhald og fyrirbyggja fölsun. 

Eitt af stefnumarkmiðum Matvælastofnunar fyrir árin 2015 til 2020 er „Velferð og verðmætasköpun“, sem á vel við þegar niðurstöður þessarar úttektar eru skoðaðar útfrá þeim hagsmunum sem felast í viðskiptum með matvæli milli Íslands og Tollabandalagsins. Rússland er eitt mikilvægasta viðskiptaríki Íslands, ekki síst á sviði sjávarafurða, og eftir þessa úttekt vaxandi á sviði búfjárafurða og fiskeldis. Mikilvægt er að þessi viðskipti vaxi enn frekar og að matvælaöryggi verði áfram tryggt. Þetta er sameiginlegt verkefni þeirra sem koma að þessum málum.


Getum við bætt efni síðunnar?