Fara í efni

Tímasprengja í höndum hestamanna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í heimi íslenskra hestamanna hefur oft verið talað um tifandi tímasprengju þegar rætt er um alvarlega sjúkdóma sem borist gætu til landsins. Reglulega berast fréttir af ólöglegum innflutningi notaðra tækja, tóla, bíla, hestakerra ofl. sem geta borið með sér smitefni. Hvort sem ólöglegur innflutningur stafar af ásetningi eða gáleysi er brotið alvarlegt, hvort heldur er fyrir hestaeigendur eða aðila sem stunda útflutning hrossa og afurða þeirra. Flestir hestamenn óttast ófyrirséðar afleiðingar smitsjúkdóma, en aðrir hafa minni áhyggjur, ekki drepist íslenskir hestar sem fluttir eru til annarra landa og tal um alvarlegar afleiðingar af smiti hingað til lands sé hræðsluáróður. Málið snýst þó ekki um að hross drepist í stórum stíl, heldur að hestamenn muni tapa frelsi til athafna og hestahaldið verði kostnaðarsamara en hingað til.

Heilbrigði vart metið til fjár

Fæstir gera sér grein fyrir þeim lúxus sem íslenskir hestamenn búa við hvað varðar smitvarnir við hestahald hér á landi. Dýrmætt er að geta farið með hesta milli landshluta og reiðtygi milli hesthúsa, rekið hross á afrétt með tilheyrandi tripparéttum að ógleymdum öllum hestamannamótunum og hestaferðunum án þess að óttast að hrossin sýkist. Kostnaður hesteiganda vegna smitsjúkdóma er hverfandi hér á landi, dýralæknar sinna mest meltingarsjúkdómum, meiðslum og forvörnum.

Kostnaðarsamar afleiðingar smitsjúkdóma

Berist alvarlegur smitsjúkdómur í hross hér á landi yrðu afleiðingarnar viðamiklar og kostnaðarsamar. Hægt er að meðhöndla eða bólusetja gegn nokkrum alvarlegum smitsjúkdómum, s.s. hestainflúensu og alvarlegum herpessýkingum (EHV-1,) en ekki er þó víst að slíkar bólusetningar gefi örugga vörn. Mest er hættan á að til landsins berist smitefni sem ekki er hægt að verjast með þeim hætti. Þar er m.a. um að ræða fleiri stofna af streptokokkum skyldum þeim sem olli smitandi hósta en fyrst og fremst er mikil hætta á að hinn alvarlegi sjúkdómur kverkeitlabólga (sem einnig er streptokokkasýking, S. equi) geti borist til landsins með notuðum reiðfatnaði, reiðtygjum, áhöldum, hestakerrum ofl. Ekki er hægt að verjast þeim sjúkdómi með bólusetningu eins og er. Grunnbólusetning (tvær til þrjár bólusetningar), mun kosta einhverja tugi þúsunda á hvert hross og svo árlega eftir það. Kostnaður við slíkar bólusetningar í nágrannalöndum okkar gefur hestamönnum hugmyndir um eða verðmiða á beinar afleiðingar smitsjúkdóma. Erfiðara er að setja verðmiða á meðhöndlun veikra hrossa og hömlur á ferðafrelsi (reiðtúrar, mótahald, hestaferðir) á meðan unnið væri að grunnbólusetningu á landsvísu, sem tæki nokkra mánuði. 

Nauðsynlegt að hestamenn verjist sjálfir

Stjórnvöld gera það sem  í þeirra valdi stendur til að varna því að smit berist til landsins og lög banna innflutning þess sem getur borið með sér smit í dýr. Á Keflavíkurflugvelli er hægt að koma notuðum reiðfatnaði í hreinsun sem uppfyllir kröfur um smitvarnir og eru menn hvattir til að nota þá þjónustu. Að öðrum kosti þarf að vera búið að þvo og sótthreinsa notaðan reiðfatnað fyrir komuna til landsins. Með öllu er óheimilt að flytja inn notuð reiðtygi og notaða reiðhanska. Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um hvað sé óhætt að flytja til landsins af notuðum reiðfatnaði, gefið út bæklinga og birt viðvaranir á heimasíðu. Skilvirkasta smitvörnin er þó hjá hestamönnunum sjálfum og þá sérstaklega þeim sem hafa regluleg samskipti við útlönd. Mesti samgangurinn við útlönd er meðal reiðkennara, þjálfara, dómara  og járningamanna  að ógleymdum erlendum kaupendum og gestum hestaleiga og þjálfunarstöðva. Hver og einn verður að staldra við þegar gest ber að garði ef líklegt er að hann sé nýlega kominn frá útlöndum. Það er engin ókurteisi að spyrja gest hvort hann sé hugsanlega með eitthvað sem gæti borið smit í hestana, s.s. reiðbuxur, skó, hjálm eða hanska, það sýnir einfaldlega ábyrgð hesteigandans. Að bera smitefni í hross er jafn alvarlegt hvort sem það er gert af gáleysi eða af ásetningi, afleiðingarnar geta orðið jafn dýrkeyptar og verða ekki aftur teknar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?