Fara í efni

Takmörkunum vegna fuglainflúensu aflétt en óvissustig í gildi

Ráðherra hefur aflétt fyrirskipuðum sóttvarnaraðgerðum vegna fuglainflúensu sem hafa verið í gildi síðan í mars 2022. Áhættumatshópur um fuglainflúensu álítur að hætta á að fuglainflúensa berist frá villtum fuglum í alifugla séu ekki miklar. Matið byggist á að lítið hefur verið um greiningar á skæðri fuglainflúensu að undanförnu. Óvissustig er þó í gildi, sem þýðir að fuglaeigendur ættu að tryggja góðar sóttvarnir til að draga úr hættu á smiti frá villtum fuglum.

Fuglainflúensa hefur greinst í nokkrum villtum fuglum síðan í fyrrasumar og í öllum tilfellum hefur verið um afbrigðið H5N5 að ræða, ekki H5N1 sem mest er um í Evrópu og víðar í heiminum um þessar mundir. Frá árinu 2021 hefur H5N5 afbrigðið aðallega greinst í villtum fuglum á norðlægum slóðum en hefur ekki valdið fjöldadauða og ekki greinst í alifuglum. Áhættumatshópur um fuglainflúensu telur að búast megi við einhverjum sýkingum í villtum fuglum í vetur og hætta á að smit berist frá þeim í alifugla sé til staðar, þótt líkurnar séu ekki miklar. Óvissustig er því í gildi og fuglaeigendur eru hvattir til að gera ráðstafanir til draga úr hættu á smiti og vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum. Helstu atriði sem hafa þarf í huga eru:

  • Forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla
  • Gæta þess að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum
  • Halda fuglahúsum vel við
  • Tilkynna til Matvælastofnunar um aukin og grunsamleg veikindi og dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi
  • Eigendur alifuglabúa með 250 fugla eða fleiri eiga auk þess ávallt að uppfylla skilyrði um smitvarnir, sem tilgreind eru í reglugerð 88/2022 um velferð alifugla

Einnig er mikilvægt að almenningur tilkynni Matvælastofnun um fund á veikum og dauðum villtum fuglum, nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla. Æskilegt er að hnit fundarstaðarins séu tiltekin í tilkynningu.

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglainflúensu


Getum við bætt efni síðunnar?