Fara í efni

Synjun á nýtingu á mjöli til fóðurgerðar staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í mars sl.synjaði Matvælastofnun matvælafyrirtæki í Hafnarfirði um leyfi til að nýta mjöl til fóðurgerðar. Fyrirtækið (hér eftir nefnt kærandi) var ósátt við synjunina og kærði hana til ráðuneytis. Ráðuneytið hefur nú nýlega staðfest synjun Matvælastofnunar með úrskurði.

Kærandi vildi vinna og nýta mjölið til fóðurgerðar fyrir svonefnd einmaga dýr, auk markaðssetningar á innanlandsmarkaði og á markaði utan aðildarríkja Evrópusambandsins. Um var að ræða mjöl sem þegar hafði verið framleitt en ekki verið nýtt.

Fyrir lá að kærandi hafði ekki starfsleyfi til fóðurgerðar. Umrætt fóður hafði því verið framleitt án starfsleyfis. Enn fremur innihélt mjölið aukaafurðir dýra en samkv. lögum þurfa þeir sem meðhöndla, geyma, flytja eða vinna aukaafurðir dýra sem ekki teljast til úrgangs að sækja um leyfi Matvælastofnunar áður en starfsemi hefst.

Það var því niðurstaða ráðuneytis að mjölið hefði ekki verið framleitt í samþykktri starfsstöð til fóðurgerðar fyrir einmaga dýr eins og skilyrði laga mæla fyrir um.

Að auki lá fyrir að mjölið var unnið úr þeim afurðum dýra sem ekki fara í matvæli, þar með talið úr innihaldi meltingarvegar sem bannað er að nota í fóður. Enn fremur mæla lög svo fyrir að ef dýraprótein er unnið úr aukaafurðum úr dýrum sé ekki heimilt að nota það í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis.

Kærandi hélt því einnig fram að Matvælastofnun hefði brotið bæði rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins. Matvælastofnun mótmælti því og ráðuneytið féllst á að þær reglur hefðu ekki verið brotnar.

Niðurstaðan var því sú að synjun Matvælastofnunar var staðfest.


Getum við bætt efni síðunnar?