Fara í efni

Synjun á afgreiðslu umsóknar staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hefur staðfest þá ákvörðun Matvælastofnunar frá ágúst 2014 að afgreiða ekki á þeim tíma umsókn um markaðssetningu á fæðubótarefninu Hydroxycut Hardcore Elite. Matvælastofnun taldi með vísan til ákvæðis í reglugerð nr. 453/2014 að ekki væri heimilt að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar fyrr en eftir 1. janúar 2015, þar sem varan innhélt meira koffín en sem nemur 300 mg í ráðlögðum daglegum neysluskammti. Hins vegar var kæranda bent á að opnað yrði fyrir umsóknir á þeim tíma og þá gæti kærandi sent inn umsóknina.

Kærandi var ósáttur við þetta og kærði þetta svar til ráðuneytis í september 2014. Taldi þetta m.a. takmarka atvinnufrelsi sitt og koma í veg fyrir frjálst flæði vörunnar innan evrópska efnahagssvæðisins að þurfa að bíða marga mánuði eftir að fá umsóknina afgreidda.

Í úrskurði sínum frá apríl 2015 segir að ráðuneytið geti ekki fallist á að atvinnufrelsi kæranda sé skert þó innflutningur á ákveðinni vöru sé takmarkaður eða bannaður á tilteknu tímabili. Varan uppfylli ekki skilyrði reglugerðar sem sett sé á grundvelli laga nr. 93/1995 um matvæli. Varan kunni hugsanlega að verða markaðssett síðar á Íslandi en ekki hafi verið heimilt að markaðssetja vöruna á þeim tíma sem umsókn kæranda barst Matvælastofnun. Því var sú ákvörðun stofnunarinnar frá því í ágúst 2014 að afgreiða ekki að svo stöddu umsókn kæranda til að markaðssetja vöruna Hydroxycut Hardcore Elite á Íslandi staðfest.


Getum við bætt efni síðunnar?