Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í dýrum og matvælum árið 2023
Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2023 er nú komin út. Skýrslan er gefin út í samstarfi við Embætti landlæknis sem leggur til þá kafla skýrslunnar sem fjalla um sýklalyfjanotkun manna ásamt sýklalyfjanæmi baktería frá mönnum. Einnig lögðu Landspítalinn, Lyfjastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun til gögn sem skýrslan byggir á.
Heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis árið 2023 dróst saman um 12% á milli áranna 2022 og 2023. Árið áður hafði verið aukning frá fyrra ári um 31% og var ástæða þess sýklalyfjagjöf í landeldi á bleikju gegn kýlaveikibróður. Á árinu 2023 þurfti enn að fylgja sýkingunni eftir með sýklalyfjagjöf en þó í minna magni en árið áður. Lyf í flokki beta-laktamasanæmra penicillína var hlutfallslega stærsti undirflokkur sýklalyfja með 39% af heildarsölu. Sýklalyf sem notuð voru í meðhöndlun vegna kýlaveikibróður voru lyf í flokki annarra sýklalyfja (17% af heildarsölu) og í flokki tetracýklínsambanda (12% af heildarsölu), sem skýrir hlutfallslega aukningu í þeim flokkum miðað við fyrri ár.
Um 67% af seldum sýklalyfjum fyrir dýr tilheyra flokki D í AMEG-flokkun Lyfjastofnunar Evrópu, en lyf í flokki D eru fyrsti valkostur þegar velja skal sýklalyf. Næstalgengasti flokkurinn fyrir dýr (33%) eru lyf í flokki C en aðeins 0,1% af seldum sýklalyfjum fyrir dýr tilheyra flokki B. Lyf í flokki B, sem eru mikilvæg í mannalækningum og ættu aðeins að koma til greina þegar engin önnur sýklalyf í flokki C eða D geta komið að gagni. Samkvæmt nýjustu skýrslu Lyfjastofnunar Evrópu er sala sýklalyfja fyrir dýr á Íslandi árið 2022 minnst í Evrópu í tonnum talið, eða 0,6 tonn. Ef magni seldra lyfja er deilt með áætlaðri þyngd búfjár er aðeins Noregur með minna magn seldra sýklalyfja en Ísland.
Helstu niðurstöður næmisprófana á bakteríum frá dýrum og matvælum árið 2023 voru eftirfarandi:
- Níu stofnar úr jákvæðum stroksýnum sem tekin voru samkvæmt landsáætlun um varnir og viðbrögð gegn Salmonella í svínum og afurðum þeirra voru næmisprófaðir. Sex þeirra reyndust ónæmir, þar af tveir fjölónæmir.
- Einungis einn Salmonella stofn fannst við skimun fyrir Salmonella í 143 botnalangasýnum úr svínum. Hann var næmisprófaður og reyndist ónæmur fyrir tveimur sýklalyfjum.
- Skimað var fyrir Campylobacter í 143 botnalangasýnum úr svínum. 141 Campylobacter coli stofn fannst og voru 100 stofnar næmisprófaðir og reyndust 79 þeirra (79%) ónæmir fyrir cíprófloxacín.
- 85 E. coli bendibakteríustofnar frá svínabotnlöngum voru næmisprófaðir og voru 30 þeirra (37,5%) ónæmir fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, átta þeirra voru fjölónæmir.
- Skimað var fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli og karbapenemasa myndandi E. coli úr svínabotnlöngum. Tvö sýni af 143 sýnum (1,4%) úr reyndust jákvæð fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli. Báðir stofnarnir voru ESBL myndandi og báru plasmíðborin blaCTX-M-15 gen. Öll sýnin reyndust neikvæð m.t.t. karbapenemasa myndandi E. coli.
Ein heilsa: Sýklalyfjaónæmi er alþjóðleg og þverfagleg áskorun
Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn stendur frammi fyrir. Sú hætta er raunveruleg að í framtíðinni verði ekki hægt að meðhöndla einfaldar og alvarlegar sýkingar með sýklalyfjum en það myndi hafa alvarlegar heilsufars- og efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðir heims.
Alþjóðlegar stofnanir, s.s. WHO, WOAH, FAO og fleiri, hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag. „Ein heilsa“ er heildstæð sýn sem nær yfir heilbrigði fólks, dýra og umhverfis. Hugtakið á sérstaklega vel við í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi en ónæmir sýklar berast greiðlega á milli manna, dýra og umhverfis.
Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn sýklalyfjaónæmi
Hérlendis hafa stjórnvöld ákveðið að styrkja enn frekar þverfaglega samvinnu um sýklalyfjaónæmi. Fyrir tveimur árum var skipaður starfshópur um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Starfshópurinn skilaði tillögum að aðgerðaáætlun í byrjun árs 2024 og í ágúst undirrituðu Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Áætlunin nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir og kostnaðarmat af framkvæmd þeirra 24 markmiða og 75 verkefna sem er forgangsraðað.
Framtíðin
Þó staðan á Íslandi sé að mörgu leiti góð hvað varðar notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi er mikið starf óunnið. Miklar vonir eru bundnar við nýsamþykkta aðgerðaáætlun stjórnvalda og áframhaldandi stuðning stjórnvalda og lykilstofnana við þennan málaflokk.