Svínaflensa greinist á svínabúi
Frétt -
30.11.2010
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
|
Svínainflúensa hefur
greinst á svínabúinu á Melum í Melasveit. Um er að ræða uppeldisbú sem
tekur við grísum frá sex öðrum búum og hafa öll búin verið sett í
einangrun til bráðabirgða. Starfsmenn svínabúa voru bólusettir gegn
svínainflúensu við komu bóluefnis til landsins á síðasta ári og er lítil
hætta á að smitið berist úr svínum í fólk. Til öryggis hefur
forráðamönnum svínabúanna verið ráðlagt að láta bólusetja starfsfólk á
svínabúum að nýju í varúðarskyni. |
S.l. miðvikudag bárust niðurstöður blóðrannsóknar sem sýndi að sex grísir frá svínabúinu Melum í Melasveit og einn grís frá svínabúinu í Hýrumel í Borgarfirði báru mótefni gegn inflúensuveiru A H1N1 sem veldur svínainflúensu. Daginn eftir voru tekin tekin sýni í búinu á Melum til staðfestingar með PCR greiningu og greindust 8 sýni af 13 jákvæð fyrir veirunni.
Á síðasta ári greindist sama svínainflúensuveira á svínabúunum Minni Vatnsleysu og Hraukbæ og talið var að það hefðu verið svínahirðar, sem ekki hafði náðst að bólusetja í tæka tíð, sem hefðu smitað svínin. Það sýndi sig að veiran olli aðeins vægum einkennum í svínunum, en samt voru bú þessi sett undir sérstakt eftirlit viðkomandi héraðsdýralækna, enda er sjúkdómur þessi í tilkynningarskyldur og af B flokki, skv. lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
Á sama hátt hafa nú svínabúin á Melum og í Hýrumel, ásamt fimm öðrum svínabúum sem tengjast þessum búum, verið sett undir sérstakt eftirlit. Verið er að taka sýni af þessum búum og munu niðurstöður liggja fyrir síðar í vikunni.
Skýrt skal tekið fram að engin hætta er á því að svínainflúensa berist úr svínum í fólk við neyslu á svínakjöti.
Ítarefni