Fara í efni

Sveppasýkingar í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Húðsýkingar í hrossum af völdum sveppa hafa verið landlægar hér á landi í a.m.k. 15 ár. Algengasta sveppategundin er Trichophyton mentagrophytes en nokkrar aðrar tegundir, s.s. Microsporum canis og Microsporum gypseum, hafa einnig greinst í hrossum hér á landi. Sveppasýkingar smitast með búnaði s.s. beislum, hnökkum, kömbum og yfirbreiðslum auk þess að smitast milli hesta við snertingu. Menn geta auðveldlega borið smitið á milli hesta með berum höndum, hönskum og öðrum fatnaði. Hafa ber í huga að allt að tvær vikur geta liðið frá smiti þar til einkenni koma fram. Einkennin eru kláði og hringlaga hárlausir blettir, gjarnan í kringum höfuðið þó þeir geti verið hvar sem er á líkamanum. Bakteríusýkingar geta náð sér á strik í blettunum og valdið frekari eymslum og óþrifum. Þó svo yfirleitt sé ekki um alvarlegar sýkingar að ræða eru þær hvimleiðar og geta leitt til óþæginda, sérstaklega ef blettirnir eru undir reiðverum. Þá draga þær úr náttúrulegum vörnum útigangshrossa gegn kulda og vosbúð.


Yfirleitt er auðvelt að meðhöndla þessar sýkingar en til þess að ná árangri þarf auk þess að hreinsa vel og sótthreinsa allan búnað sem notaður hefur verið á viðkomandi hross. Sveppagró geta lifað lengi í hesthúsum og því er afar erfitt að útrýma sveppasýkingum. Svo virðist sem hross myndi smám saman mótstöðu gegn framangreindum sveppasýkingum og því eru tiltölulega fá hross með einkenni á hverjum tíma.


Nú hefur vaknað grunur um að sveppategundin Trichophyton verrucosum sem veldur hringskyrfi, hafi sýkt hross hér á landi, en þegar hafa greinst tilfelli í nautgripum í Eyjafirði og Skagfirði. Um 20 ár eru síðan sjúkdómurinn greindist síðast í nautgripum hér á landi. Algengast er að þessi tegund greinist í nautgripum en ljóst er að hún getur borist í hross. Einkennin verða ekki greind frá öðrum sveppasýkingum í hrossum og ekki er líklegt að þessi sveppur verði þeim skeinuhættari en þeir sem áður hafa greinst. Þar sem um nýjan svepp er að ræða, sem getur komið harðar niður á öðrum búfjártegundum, er þó mikilvægt að bregðast við og meðhöndla þessar sýkingar sem fyrst auk þess sem nauðsynlegt er að hreinsa og sótthreinsa allan búnað sem getur verið mengaður.


Þar sem allar framangreindar sveppategundir geta einnig borist í menn eru hestamenn hvattir til að gæta hreinlætis og nota hanska við meðhöndlun sýktra dýra og hreinsun búnaðar.

Dýralæknar um land allt veita nánari upplýsingar um meðhöndlanir.Getum við bætt efni síðunnar?