Fara í efni

Sumargrísir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Yfir sumartímann er nokkuð um að fólk kaupi sér grísi til að ala fram á haust. Ákveðin atriði ber að hafa í huga sé slíkt gert og hér eru nokkur þeirra nefnd.

Tilkynna þarf til Matvælastofnunar ef haldin eru fleiri en tvö fullorðin svín eða fleiri en 20 grísir á hverjum tíma. Ef fjöldi svína er innan þessara marka þarf ekki að tilkynna. Ef eigendur hafa í hyggju að selja afurðir svína sinna þurfa þeir að kynna sér reglur sem gilda um matvælaframleiðslu.

Mikilvægt er að afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun svína og þær kröfur sem eru gerðar varðandi aðbúnað og velferð dýra.

Við svínahald þarf að huga að smitvörnum. Viðhafa skal almennt hreinlæti í umgengni við svínin, svo sem handþvott, bæði til að vernda þau gegn smiti og þann sem annast þau. Svín geta borið með sér smit, einkum salmonellusmit, og þurfa kaupendur grísa að kynna sér stöðu þess bús sem keypt er frá.

Afrísk svínapest er veirusjúkdómur sem geisar um Evrópu um þessar mundir. Mikilvægt er að halda þessum sjúkdómi frá íslenska svínastofninum þar sem að sjúkdómurinn er mjög alvarlegur, bráðsmitandi og hvorki er hægt að bólusetja gegn honum né meðhöndla sýkt dýr. Aflífa þyrfti hjörðina ef sjúkdómur kemur upp.

Algeng smitleið fyrir afríska svínapest og fleiri alvarlega smitsjúkdóma í svínum, er fóðrun með dýraafurðum eða eldhúsúrgangi, þar sem að veiran getur lifað lengi í matvælum. Bannað er að gefa svínum dýraafurðir, að mjólk og eggjum undanskildum, og eldhúsúrgang sem inniheldur dýraafurðir eða hefur komist í snertingu við dýraafurðir.

Afrísk svínapest er tilkynningaskyldur sjúkdómur skv. lögum og tilkynna skal um grun strax til dýralæknis eða Matvælastofnunar. Algengustu einkenni eru hár hiti, lystarleysi, roði í húð, uppköst og/eða niðurgangur. Hafi eigandi grun um smitandi sjúkdóm í dýrum sínum er mjög mikilvægt að tilkynna sem fyrst svo hægt sé að bregðast fljótt við og takmarka tjón.

Ítarefni

Upplýsingasíðan „Grís í garðinum“. Leiðbeiningar um kaup, sóttvarnir, sölu afurða o.fl.


Getum við bætt efni síðunnar?