Fara í efni

Strandveiðar hafnar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á strandveiðitímabilinu frá maí og fram í ágúst má gera ráð fyrir aukningu á lönduðum afla dagróðrarbáta á fiskmörkuðum. Við upphaf veiða höfðu 490 umsóknir um leyfi til strandveiða borist skv. frétt á vef Fiskistofu. Fyrsta skrefið í að tryggja að íslenskar sjávarafurðir komist til neytenda sem hágæðavara er að sá afli sem komið er með að landi sé meðhöndlaður eins vel og kostur er. Þar gegnir góð og hröð kæling lykilhlutverki.


Samkvæmt reglugerð nr. 104/2010* þá gildir eftirfarandi um kælingu á afla:


    „Kæla skal fisk og fiskafurðir eins fljótt og hægt er eftir að þær eru teknar um borð…“

Matvælastofnun túlkar þetta ákvæði á þann veg að hitastig fisks verði að vera komið niður í hitastig bráðnandi íss (0-4°C) innan 6 klst. eftir að hann hefur verið veiddur. Það ætti, þrátt fyrir þessa skilgreiningu á kælihitastigi, að vera raunhæft markmið að koma hitastigi í afla niður fyrir 2°C. Það myndi skila sér beint í auknum gæðum og lengra geymsluþoli fersks fisks.


Þar sem nú fer í hönd heitasti tími ársins er kæling aflans enn mikilvægari en ella, og gildir hvort heldur báturinn er strandveiðibátur eða hefðbundið aflamarksskip.


Matís hefur gefið út eftirfarandi leiðbeiningar um hve mikið ísmagn þarf til kælingar:


Til að kæla 100 kg af fiski úr 15°C niður í 0°C þarf 19 kg af ís.
Til að kæla 100 kg af fiski úr 10°C niður í 0°C þarf 13 kg af ís.
Til að kæla 100 kg af fiski úr 5°C niður í 0°C þarf 6 kg af ís.


Að auki þarf nokkurt magn af ís til að viðhalda kælingunni.


Matvælastofnun hvetur sjómenn og aðra fiskverkendur að gæta vel að allri meðhöndlun aflans, s.s blóðgun, kælingu, slægingu, þvotti úr hreinu vatni sem og frágangi í kör, ísun milli laga í körum, gæta þess að merja ekki fiskinn við löndun og viðhalda kælingunni órofinni enda hvílir sú skylda á þeim sem veiða og vinna fisk að stuðla að hámörkun verðmæta sem fást úr sjávarfangi, með því að beita góðum starfsháttum í hvívetna.


Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?