Fara í efni

Stöðumat á smitandi hósta í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


  Niðurstöður úr krufningum hrossa með smitandi hósta, sem lógað var í rannsóknaskyni á Tilraunastöðinni á Keldum, benda eindregið til að einkenni veikinnar megi rekja til streptókokkasýkingar (S. Zooepidemicus) í hálsi hrossanna. Enn er unnið að rannsóknum á uppruna sýkingarinnar.
 
Jákvæð ræktun á streptókokkum úr nasastroksýnum fyrstu 2-3 vikur eftir smit samhliða því að bera fer á hósta og slím- eða graftarkenndu nefrennsli bendir til að bakteríusýkingin búi fyrst um sig í slímhúð í hálsi og breiðist síðan út í nefhol og niður í barka. Alla jafna  fer sýkingin ekki í gegnum slímhúðina og hefur bakterían ekki ræktast í líffærum.

Samkvæmt spurningakönnun, sem send var á netlista yfir hestatengda starfsemi, náði faraldurinn hámarki í húshrossum um mánaðarmótin apríl – maí og var þá kominn í alla landshluta.  Algengast virðist að hross hafi hóstað í 3 vikur eða minna og sjaldgæft að einkenni hafi varað í meira en 6 vikur. Að mati þeirra sem svöruðu könnuninni er meirihluti hrossanna nú kominn yfir veikina.

Enn er ekki komið í ljós hversu góða mótstöðu hross mynda gegn sýkingunni. Vísbendingar eru um endursmit í einhverjum tilfellum, einkum ef hross koma til baka í smitað umhverfi eða ef veikum hesti er bætt í hópinn. Reikna verður með (út frá þekkingu á skyldum sýkingum erlendis) að allt að fjórðungur hrossa sem fengið hafa veikina séu í hættu að fá hana aftur.

Mikilvægt er að halda smitálagi í umhverfi hrossa í lágmarki með því að halda veikum hrossum frá á meðan þau eru að jafna sig. Sjálfsagt er að meðhöndla þau hross sem sem enn eru að kljást við sýkinguna með penicillini og dregur það einnig úr smitálagi. Sólarljós og þurrkur hjálpa til við að hreinsa umhverfið úti en nauðsynlegt er að þrífa vel og sótthreinsa hesthús. Talið er að draga megi verulega úr hættunni  á nýjum faraldri sjúkdómsins með haustinu ef þessum ráðum verður fylgt.

Aðrar varnir

Eftirlit með hestatengdri starfsemi gefur ekki tilefni til að ætla að veik hross séu notuð í starfsemina. Sömuleiðis var heilsufar hrossa mjög gott á kynbótasýningum í lok júní.

Auglýsinar um smitvarnir á ensku og íslensku hafa verið sendar á hestatengda vefmiðla með ósk um varanlega birtingu, helst á áberandi stað og er þær  nú að finna á heimasíðum Landsambands hestamannafélaga og Félags hrossabænda auk Matvælastofnunar. Verið er að prenta stóran auglýsingaborða sem verður staðsettur í Leifsstöð og plaköt fyrir hesthús.

Matvælastofnun
Tilraunastöðin á Keldum
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?