Fara í efni

Stöndum saman um smitvarnir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hesta-herpes af gerð 1 (EHV-1) er alvarlegur sjúkdómsvaldur í hrossum og meðal þeirra smitefna sem aldrei hafa greinst í hrossum hér á landi.

Vakin er athygli á að alvarleg tilfelli af EHV-1 sýkingu, með einkennum frá taugakerfinu, hafa greinst í hrossum í Svíþjóð á undanförnum vikum og sömu sögu er að segja víða í Evrópu og N-Ameríku.

Mikilvægt er að þessi sjúkdómur berist ekki til landsins. Eins og lýst er hér á eftir er sjúkdómurinn lúmskur og smitberar geta hæglega leynst í hesthúsum þó ekki sjáist veikindi á hrossunum.

Hestamenn verða sem aldrei fyrr að uppfylla ýtrustu kröfur um smitvarnir þegar farið er á milli landa hvort heldur sem er vegna atvinnu eða í frístundum og að gera sömu kröfur til viðskiptavina sinna og annarra gesta.

Með öllu er óheimilt að koma með til landsins notuð reiðtygi, s.s. hnakka, mél, höfuðleður, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv., sem og notaða reiðhanska.

Notaðan reiðfatnað og annan fatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hrossa erlendis, skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug áður en komið er til landsins.

Aðeins má flytja til landsins notaða hestaskó, -stígvél og hjálma sem hafa verið hreinsaðir og sótthreinsaðir með eftirfarandi hætti:

    1. Þvegnir vel með sápuvatni
    2. Þurrkaðir 
    3. Sótthreinsaðir með 1% VirkonS® (10g í hvern lítra af vatni) eða öðru breiðvirku sótthreinsiefni
Að auki skulu líða a.m.k. 5 dagar frá sótthreinsun þar til en fatnaðurinn er notaður í umhverfi hesta hér á landi.

Hestamenn sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins geta afhent hann í „rauða hliðinu“ í tollinum í lokuðum plastpokum og fengið hann hreinsaðan og heimsendan gegn gjaldi.

Stöndum saman um að virða þessar reglur og kynna fyrir erlendum gestum áður en þeir leggja í ferð til Íslands. Kynningarefni á rafrænu formi er að finna á ensku hér:

Upplýsingar um EHV-1

Veiran er landlæg í hrossum um allan heim og meðal þeirra smitefna sem bólusett er fyrir í mörgum löndum. Sem fyrr segir hefur hún aldrei greinst í hrossum hér á landi en skimað hefur verið kerfisbundið fyrir þessu smitefni í hrossastofninum undanfarinn áratug.

EHV-1 veldur, eins og aðrar herpesveirur, ævilöngu smiti og því er engin leið til að útrýma þessum sjúkdómi ef hann berst til landsins á annað borð.

Þar sem smitefnið er landlægt smitast hrossin sem folöld eða trippi og má reikna með að meirihluti hrossa í nágrannalöndum okkar séu smituð. Við fyrsta smit verður gjarnan vart við kvefeinkenni, s.s. hósta og nefrennsli auk tveggja hitatoppa. Veikindin ganga yfir en veiran felur sig í tilteknum tegundum af hvítum blóðfrumum og í miðtaugakerfinu þar sem ónæmiskerfið nær ekki til hennar. Hestar sem bera veiruna með þessum hætti smita ekki út frá sér og ekki er hægt að finna þá með blóðprufum. Mótefni mælast aðeins í stuttan tíma í tengslum við kvefeinkennin. Veiran vaknar þó reglubundið úr dvalanum og þá verða hestarnir aftur smitberar, þrátt fyrir að vera einkennalausir. Talið er að stress og annað sem veikir ónæmiskerfið, s.s. meðganga, sé þess valdandi að veirusýkingin nær sér reglubundið á strik.

Af óþekktri ástæðu veldur EHV-1 öðru hverju mun alvarlegri sjúkdómi. 

Veiran ræðst þá á þekjufrumur æða í miðtaugakerfinu og veldur bólguviðbrögðum þar með litlum blóðtöppum. Súrefnisflæði til taugafrumnanna raskast og taugavefurinn skaddast. Þar með koma fram einkenni frá taugakerfinu sem geta verið þannig að hesturinn virki aðeins óstöðugur á fótum, sé mjög valtur eða liggi flatur. Algengt er að slíkir hestar geti ekki tæmt þvagblöðruna sem aftur veldur meiri veikindum ef ekki tekst að koma upp þvaglegg í tíma. Hestar sem komnir eru með einkenni frá taugakerfinu hafa þá þegar gengið í gegnum tímabil þar sem þeir spreða út smitefninu í gegnum nasirnar og geta enn verið að smita frá sér.

Annað sjúkdómsform er fósturlát hjá fylfullum hryssum. Þá eru það æðar legkökunnar sem sýkjast sem leiðir af sér súrefnisskort hjá fóstrinu. Hryssurnar geta verið með einkenni frá miðtaugakerfinu samtímis en venjulega verður aðeins vart við fósturlátið. Fóstrin og fósturhimnurnar innihalda veiruna í stórum stíl og valda mikilli smithættu.

Sem betur fer geta hross jafnað sig á taugaformi sjúkdómsins svo lengi sem þau leggjast ekki, en meðhöndlunin er löng og ströng. Sömuleiðis veldur fósturlát af völdum sjúkdómsins ekki varanlegri ófrjósemi en tjónið getur orðið mjög mikið.

Það er til mikils að vinna að verjast þessum sjúkdómi. Heilbrigði hrossastofnsins er ómetanlegt en auk þess höfum við, sem eina landið í heiminum þar sem sjúkdómurinn hefur með vissu aldrei greinst, getað útvegað rannsóknahópum víða um heim samanburðarsýni sem hafa nýst til að auka þekkingu á sjúkdómnum með það að markmiði draga úr þjáningum hrossa á heimsvísu.

Vægari gerðir af herpesveirunni eru landlægar hér á landi og hafa rannsóknir sýnt að þær hafa fylgt hrossakyninu frá upphafi. Þar er um að ræða EHV-2, EHV-4 og EHV-5. Sýkingar af þeirra völdum eru venjulega einkennalausar þó mögulega geti komið fram væg kvefeinkenni hjá folöldum. Einnig er staðfest að EHV-3 finnst hér á landi en sú veira getur valdið útbrotum á kynfærum hrossa og mögulega haft þannig tímabundin áhrif á frjósemina.

 

 


Getum við bætt efni síðunnar?