Fara í efni

Stjórnvaldsákvarðanir á sviði eftirlits með dýravelferð og matvælaframleiðslu í júní og júlí

Samkvæmt gildandi upplýsingastefnu Matvælastofnunar ber stofnuninni að birta reglulega upplýsingar um íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum sem stofnunin hefur eftirlit með.

Hér fer á eftir yfirlit yfir ákvarðanir af þessu tagi sem teknar voru í júní- og júlímánuði.

Dagsektir ákvarðaðar til að knýja fram afhendingu á rafólum

Samkv. reglugerð um velferð gæludýra er óheimilt að nota svonefndar rafólar á hunda. Lagðar voru dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag á hundaeiganda á Suðurlandi sem neitaði að afhenda MAST rafólar sem hann notaði á hunda sína. Hann bar því við að hann þyrfti tíma til að kaupa nýjar ólar. Hann skilaði þó rafólunum áður en til innheimtu dagsektanna kom og MAST lagði í framhaldinu hald á ólarnar. Í kjölfarið var lögð stjórnvaldssekt að upphæð 82.500 kr. á eigandann vegna notkunar á rafólum.

Dagsektir ákvarðaðar til að þvinga fram úrbætur í minkabúi

Lagðar voru dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag á minkabú á Suðvesturlandi til að knýja fram úrbætur á velferð minkanna.

Matvælaframleiðsla stöðvuð

Stöðvuð var öll framleiðsla matvælafyrirtækis á Norðurlandi vegna verulegra frávika og sóðaskapar. Stöðvuninni var aflétt eftir úrbætur. Fyrirtækið var jafnframt fært úr frammistöðuflokki B niður í frammistöðuflokk C sem felur í sér tíðara eftirlit.

Stjórnvaldssekt lögð á kúabú

Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 175.000 kr. á kúabú á Vesturlandi. Umfangsmikil rafmagnsbilun leiddi til þess að mjaltabúnaður var ónothæfur og fyrirliggjandi varaafl réð ekki við verkefnið. Mjaltir drógust því mjög. Öllum kúabúum er skylt að tryggja sér varaafl sem ræður við mjaltir í rafmagnsleysi.

Stjórnvaldssekt lögð á svínabú vegna brota á dýravelferð

Stjórnvaldssekt að upphæð 195.000 kr. var lögð á svínabú á Suðvesturlandi vegna þess að starfsmönnum búsins tókst ekki að svipta gyltu meðvitund fyrir aflífun eins og skylt er.

Dagsektir ákvarðaðar til að þvinga fram úrbætur í hrossahaldi

Lagðar voru dagsektir að upphæð 10.000 kr. á umráðamann hrossa á Suðurlandi til að knýja hann til að bæta úr slysahættu og sinna hófhirðu.


Getum við bætt efni síðunnar?