Fara í efni

Stjórnvaldsákvarðanir á sviði eftirlits með dýravelferð og matvælaframleiðslu í apríl og maí

Samtals voru teknar ellefu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir í apríl og maí 2024, níu í apríl og tvær í maí. Yfirlit yfir þær má finna hér að neðan.

Umráðamaður hunds sektaður vegna brota á velferð hundsins.

Sannað þótti að umráðamaðurinn hefði barið hund sinn með písk og hendi. Stjórnvaldssekt var lögð á hann að upphæð 60.000 kr.

Bóndi á Norðurlandi sektaður vegna vanrækslu á kind.

Eftir eftirlit MAST sumarið 2023 fékk bóndinn stuttan frest til að láta dýralækni líta á kind sem var hölt jafnt á framfótum sem afturfótum eða aflífa kindina ella. Bóndinn brást ekki við fyrr en seint og um síðir. Stjórnvaldssekt var lögð á hann að upphæð 300.000 kr.

Kúabú á Vesturlandi svipt mjólkursöluleyfi.

Aðstæður í mjólkurhúsi uppfylltu ekki kröfur laga og reglugerða og því var búið svipt leyfi til mjólkurframleiðslu.

Sláturhús á suðvesturlandi sektað fyrir brot á velferð holdakjúklinga við slátrun.

Starfsmenn sláturhússins hengdu sýnilega slasaða fugla upp á sláturlínu en samkv. reglugerð ber að aflífa slíka fugla strax. Stjórnvaldssekt: 150.000 kr.

Vörslusvipting á hundi á höfuðborgarsvæðinu.

Eftir ábendingu frá lögreglu um óviðunandi aðbúnað hunds var eigandinn sviptur vörslum hans og hundinum komið í hendur annarra.

Krafa um að þrjú gömul hross á Suðurlandi verði felld.

Við eftirlit kom í ljós óviðunandi ástand á hrossunum og var eigandanum gert að fella þau.

Hundur og köttur teknir tímabundið úr vörslum eigenda á höfuðborgarsvæðinu.

Lögregla handtók fólk í íbúð en því var sleppt skömmu síðar. Við handtökuna urðu eftir hundur og köttur sem fólkið hafði haft umráð yfir og enginn var til að hugsa um. MAST tók dýrin í sína vörslu en afhenti dýrin nokkrum dögum síðar eigendum sínum með ákveðnum skilyrðum.

Kröfur settar á sauðfjárbú á Vesturlandi.

Bændum gert að fækka fé sínu verulega frá og með hausti 2024 vegna skorts á getu. Jafnframt gert skylt að tryggja sér aðstoðarmann við sauðburð vorið 2024.

Dráp á hvolpum kært til lögreglu.

Matvælastofnun hefur kært til lögreglu dráp á fimm hvolpum sem fundust dauðir í Mosfellsbæ í apríllok. Þeir höfðu verið aflífaðir með skotvopni ætluðu nautgripum og skildir eftir í poka á víðavangi. Skv. gildandi reglugerð er dýralæknum einum heimilt að aflífa gæludýr nema í neyðartilvikum.

Dagsektir lagðar á bónda á Norðvesturlandi.

Matvælastofnun hefur lagt dagsektir á kúabónda á Norðvesturlandi til að knýja á um úrbætur í dýravelferð.

Alvarleg vanræksla á nautgripum kærð til lögreglu.

Frétt um málið var birt 19.apríl á heimasíðu Matvælastofnunar. 


Getum við bætt efni síðunnar?