Fara í efni

Starfsskýrsla MAST 2009

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Starfsskýrsla MAST 2009 er nú aðgengileg á rafrænu formi. Skýrslan nær yfir annað starfsár stofnunarinnar þar sem tekist var á við hin ýmsu verkefni s.s. salmonellu, nóróveiru, orkudrykki, matvæli beint frá býli, svínaflensu, varnarlínur, aðilarumsókn að ESB, útflutningur til Rúss- lands, nýja matvælalöggjöf, hagræðingu í rekstri, o.fl.

Hagkvæmni og árangur af sameiningu nokkurra stofnana og verkefna í öflugri matvæla- og dýraheilbrigðisstofnun kom vel í ljós á árinu 2009 þegar MAST vann að skýrslugerð vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Það sama átti við þegar íslensk matvælafyrirtæki vildu opna nýja markaði fyrir framleiðsluvörur sínar. Þá kom í ljós mikilvægi þess að hafa á einum stað góða heildarsýn yfir framleiðsluferlið, þ.e. allt frá heilbrigði og velferð dýra, gæða og öryggis fóðurs og öryggis fullbúinna matvæla.

Mikil aukning var á tíðni salmonellugreiningum í fóðureftirliti og í kjúklinga- og svínaeldi á árinu og hafði það í för með sér aukið eftirlit í fóðurfyrirtækjum, setningu reglugerðar um sýrublöndun fóðurs í svínabúum, aflífun alifugla þegar salmonella greindist í eldissýnum og innköllun kjúklinga þegar salmonella greindist í slátursýnum. Innflutningur svokallaðra orkudrykkja og orkuskota jókst á árinu 2009 og hefur það valdið auknum verkefnum hjá MAST í samvinnu við Lýðheilsustöð og Lyfjastofnun. Þrjár tilkynningar bárust stofnuninni um matarsýkingar, þar af var stærsta sýkingin af völdum nóróveiru á Reykjavíkursvæðinu.

Af alvarlegum dýrasjúkdómum (A-sjúkdómum) greindist riða á tveimur bæjum í Skaga- og Eyjafjarðarumdæmi í byrjun ársins. Auk lungnafárs í mink og garnaveiki greindist nýr B-sjúkdómur, þ.e.a.s. nýtt afbrigði af svínainfluensu H1N1 á tveimur búum, þar sem starfsmenn smituðu svínin. Lokið var við umfangsmiklar breytingar á varnarhólfum og varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma með útkomu auglýsingar nr. 739/2009 um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma, en þessi vinna hófst árið 2005.

Í skýrslunni eru  teknar saman upplýsingar frá sérfræðingum matvælaeftirlits, sérgreinadýralæknum, héraðsdýralæknum og þeim sem starfa við plöntuheilbrigði og áburðar- og fóðureftirlit.


Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.


Getum við bætt efni síðunnar?