Starfsskýrsla MAST 2009
Mikil aukning var á tíðni salmonellugreiningum í fóðureftirliti og í kjúklinga- og svínaeldi á árinu og hafði það í för með sér aukið eftirlit í fóðurfyrirtækjum, setningu reglugerðar um sýrublöndun fóðurs í svínabúum, aflífun alifugla þegar salmonella greindist í eldissýnum og innköllun kjúklinga þegar salmonella greindist í slátursýnum. Innflutningur svokallaðra orkudrykkja og orkuskota jókst á árinu 2009 og hefur það valdið auknum verkefnum hjá MAST í samvinnu við Lýðheilsustöð og Lyfjastofnun. Þrjár tilkynningar
bárust stofnuninni um matarsýkingar, þar af var stærsta sýkingin af
völdum nóróveiru á Reykjavíkursvæðinu.
Af alvarlegum dýrasjúkdómum (A-sjúkdómum) greindist riða á tveimur bæjum í Skaga- og Eyjafjarðarumdæmi í byrjun ársins. Auk lungnafárs í mink og garnaveiki greindist nýr B-sjúkdómur, þ.e.a.s. nýtt afbrigði af svínainfluensu H1N1 á tveimur búum, þar sem starfsmenn smituðu svínin. Lokið var við umfangsmiklar breytingar á varnarhólfum og varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma með útkomu auglýsingar nr. 739/2009 um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma, en þessi vinna hófst árið 2005.
Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar frá sérfræðingum matvælaeftirlits, sérgreinadýralæknum, héraðsdýralæknum og þeim sem starfa við plöntuheilbrigði og áburðar- og fóðureftirlit.
Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.