Starfsleyfi Ísteka ehf. til blóðtöku úr fylfullum hryssum í gildi til 2025
Ísteka ehf. hefur um áratugaskeið haft leyfi fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum, gildandi leyfi fyrirtækisins var gefið út árið 2022 eftir útgáfu reglugerðar nr. 900/2022 um blóðtöku úr fylfullum hryssum og gildir það til 5. október 2025. Leyfið var gefið út á grundvelli 3. gr. reglugerðarinnar og með vísan til 20. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
Eftir að Eftirlitsstofnun EFTA upplýsti íslensk stjórnvöld um að starfseminni bæri að fara eftir tilskipun sem innleidd hefur verið hérlendis með reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni felldi matvælaráðherra reglugerð nr. 900/2022 úr gildi. Ekki er fjallað sérstaklega um afturköllun leyfis stefnanda í reglugerð nr. 1130/2023 sem felldi reglugerð nr. 900/2022 úr gildi og engin breyting hefur verið gerð á lögum nr. 55/2013 sem sérstaklega er vísað til í leyfinu og er grundvöllur þess.
Matvælastofnun hefur skoðað hvort tilefni sé til að afturkalla starfsleyfi Ísteka ehf. á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga.
Eftir að hafa farið yfir þau gögn sem liggja fyrir og sjónarmið frá Ísteka ehf. er það mat stofnunarinnar að ekki séu nægjanlegar málsástæður til að afturkalla starfsleyfi fyrirtækisins og mun starfsemin halda áfram á grundvelli leyfisins til 5. október 2025.
Ákvörðun stofnunarinnar byggir m.a. á því að sterkar ástæður þurfi til að afturkalla ívilnandi stjórnvaldsákvörðun líkt og ákvörðun um útgáfu starfsleyfis til Ísteka. Matvælastofnun telur að eftirlits- og rannsóknarniðurstöður sem nú liggja fyrir gefi ekki tilefni til að líta svo á að ríkar heimildir séu til staðar hvað varðar velferð og heilsu hryssa sem notaðar eru til blóðtöku. Veigamiklar ástæður þarf til afturköllunar leyfis sem aðili er byrjaður að nýta og er afmarkað hvað varðar efni og tíma. Þá horfði Matvælastofnun til réttmætra væntingar leyfishafa og þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið upplýsti við meðferð málsins um hvaða afleiðingar afturköllun hefði á starfsemi þess og samstarfsaðila.
Matvælastofnun hefur upplýst fyrirtækið um ítarlegar kröfur sem fyrirtækið og starfsemin verður að uppfylla.