Fara í efni

Staða greininga á fuglaflensu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Það sem af er þessu ári hafa fuglaflensuveirur af gerðinni H5 greinst í þrettán sýnum úr villtum fuglum víðsvegar á landinu og heimilishænum á einum stað. Beðið er eftir niðurstöðum um meinvirkni og nánari greiningu á gerð veiranna. Hætta á smiti frá villtum fuglum í alifugla er mikil og því mjög brýnt að alifuglaeigendur gæti ýtrustu sóttvarna.

Af þeim þrettán sýnum úr villtum fuglum sem fuglaflensa greindist í voru fimm úr súlum á Reykjanesi, þrjú úr súlum á Snæfellsnesi, eitt úr hrafni á Skeiðum, eitt úr heiðagæs við Höfn í Hornafirði, eitt úr skarfi á Kjalarnesi, eitt úr grágæs á Akureyri og eitt úr svartbak á Húsavík.  Niðurstaða rannsókna á einu sýni úr álft í Laugardal í Bláskógabyggð var ekki afgerandi en ekki hægt að útiloka smit. Í tveimur sýnum til viðbótar voru niðurstöður rannsóknar ófullnægjandi, eitt úr tjaldi við Apavatn í Bláskógabyggð og eitt úr heiðargæs í Grímsnesi. Önnur sýni hafa verið neikvæð. Niðurstöður eru birtar í kortasjá Matvælastofnunar.

Þessi útbreiðsla undirstrikar að smithætta frá villtum fuglum er mikil þessa daga fyrir alla alifugla og aðra fugla í haldi. Strangar sóttvarnir, sem miða að því að fyrirbyggja smit frá villtum fuglum, þurfa að vera innleiddar alls staðar þar sem fuglar eru í umsjón manna. Nánar má lesa um aukið viðbúnaðarstig, sóttvarnir og fleira á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um fuglaflensu. Mikilvægt er að fylgjast mjög vel með heilsufari alifugla og annarra fugla í haldi, og hafa án tafar samband við Matvælastofnun ef upp kemur grunur um veikindi. Matvælastofnun kannar þá heilsufar í grunsamlegum fuglum, tekur sýni og gerir ráðstafanir eftir því sem við á.

Niðurstöður rannsókna á meinvirkni og nánari greiningu á gerð fuglaflensuveiranna sem fyrst greindust eru væntanlegar í lok þessara viku. Þó þessar niðurstöður liggi ekki enn fyrir er gengið út frá því að um sé að ræða það skæða afbrigði fuglaflensuveira sem hefur geisað í Evrópu og víðar að undanförnu.

Samkvæmt mati Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) og Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) er smithætta fyrir fólk af þessum veirum lítil. Tilfelli í fólki eru afar sjaldgæf og aðeins eftir mikið návígi við smitaða fugla án þess að sóttvarna hafi verið gætt. Engin dæmi eru um að fólk smitist við neyslu afurða alifugla eða villtra fugla.


Getum við bætt efni síðunnar?