Fara í efni

Smitandi hósti í hrossum ekki talinn af völdum herpessýkinga

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Eins og skýrt hefur komið fram í fréttatilkynningum frá MAST er ekki hægt að tengja faraldur smitandi hósta sem nú fer um hrossastofninn við neinar veirusýkingar sem þekktar eru fyrir að leggjast á öndunarfæri hrossa. Þar eru meðtaldar herpesveirurnar EHV-1, EHV-2, EHV-4 og EHV-5.

Vitað er að gammaherpesveirurnar EHV-2 og EHV-5 eru landlægar í hrossum hér á landi.  Hross smitast yfirleitt með gammaherpesveirum 1-6 mánaða gömul og sýna þá gjarnan væg einkenni frá efri öndunarvegi. Sýkingin þróast yfir í dulda eða viðvarandi sýkingu án einkenna og öll hross á Íslandi hafa mótefni gegn gammaherpesveirum.  Rannsóknir hafa sýnt að líklega eru öll fullorðin hross á Íslandi dulsýkt með báðum veirunum og mögulega getur hvert hross haft nokkur afbrigði af veirunum í sér. Líklegt er að þegar aðrir sjúkdómar herji á hross geti gammaherpesveirur í dvala örvast.  Þegar upp kom faraldur hornhimnubólgu í íslenska hestinum árið 2004 greindust gammaherpesveirur í mörgum stroksýnum þrátt fyrir að raunveruleg ástæða sýkingarinnar væri adenóveira (Equine Adenovirus type 1). Veirurnar hafa einnig greinst þegar upp hafa komið bæði salmónellu- og listeríusýkingar í hrossum.

  
Þegar hitasóttin kom upp árið 1998 greindist gammaherpesveira í fyrsta sinn í hrossum hér á landi og var veiran um tíma álitinn möguleg orsök að þeim faraldri. Rannsókn á eldri sermissýnum sem til voru í frysti á Tilraunastöðunni að Keldum (frá þeim tíma að s.k. Coggins test var gert á öllum útflutningshrossum) opnaði þá augu okkar fyrir því að gammaherpesveirur höfðu verið lengi í hrossastofninum og höfðu því ekkert með hitasóttina að gera.

Á Keldum hafa gammaherpesveirusýkingar í hestum hérlendis verið rannsakaðar í rúman áratug. Skoðuð hafa verið ónæmisviðbrögð  ýmissa aldurshópa, tíðni sýkinga og breytileiki í erfðaefni veirustofna.  Hópur undir stjórn Vilhjálms Svanssonar vann í kjölfar hitasóttarinnar merka rannsókn á gamma herpesveirum í íslenskum hrossum og hefur fært rök fyrir því að sýkingarnar hafi fylgt íslenska hestinum frá landnámi. Þeir stofnar veirunnar sem fundist hafa í íslenskum hrossum eru samkvæmt raðgreiningu ekki frábrugðnir þeim stofnum sem lýst er í hrossum erlendis þrátt fyrir ellefu hundruð ára einangrun.

Að framansögðu er því ljóst að  túlka verður fund á gammaherpesveirunum EHV-2 og EHV-5 afar varlega. Sem fyrr segir eru nær allir hestar landsins dulsýktir með veirunum auk þess að hafa öflug ónæmissvör gegn þeim sem dregur mjög úr líkunum á að þær geti valdið faraldri hérlendis.

Ísland er eina landið í heiminum þar sem EHV-1 er ekki að finna í hossum. Þegar faraldur smitandi hósta kom upp var strax skoðað hvort EHV-1 gæti verið orsökin, en mikilvægt að útiloka EHV-1 sem fyrst. Bæði PCR á nasastroksýnum og mótefnamælingar reyndust vera neikvæð. 

Þáttur gammaherpesveira var og skoðaður. Báðar veirurnar EHV-2 og EHV-5 greindust í stroksýnum úr nösum á hestum með smitandi hósta en einnig ósýktum hrossum. Út frá fyrirliggjandi þekkingu er ekki hægt að tengja þann fund við faraldurinn.

Þeir sem að þessum rannsóknum starfa að hálfu opinberra aðila  hafa því ekki haft uppi þá kenningu að smitandi hósti væri af völdum gammaherpesveira eða annara herpes veira.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?