Fara í efni

Smitandi fótasár í minki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  
Svo virðist sem sjúdómurinn smitandi fótasár í minkum (pododermatitis) sé kominn á minkabú á Íslandi. Eins og staðan er nú virðist sjúkdómurinn vera á 6 minkabúum á landinu. Ekki er um mörg dýr að ræða en það er þó nokkuð misjafnt á milli búa. Á viðkomandi búum hefur verið gripið til nausynlegra aðgerða. Talið er mögulegt að sjúkdómurinn hafi komið til landsins með innfluttum minkum, þrátt fyrir að hans hafi ekki orðið vart í sóttkví hér á landi og að dýrin hafi komið með tilskyldum heilbrigðisvottorðum.

Um er að ræða sjúkdóm sem þekktur er öðrum löndum s.s. Danmörku, Finnlandi, Hollandi og Kanada svo einhver séu nefnd. Fyrst fór að bera á þessum sjúkdómi í Kanada um 1996 en þó er jafnvel talið að hann hafi einnig verið til staðar í Utah í Bandaríkjunum um 1970. Sjúkdómsupptökin hafa verið tengd við fóðrun minka með selkjöti þó svo það hafi aldrei verið sannað. Talið er að sjúkdómurinn hafi verið fluttur frá Kanada til Evrópu.

Orsakir sjúkdómsins eru óþekktar, þrátt fyrir töluverðar rannsóknir, en hann viðist haga sér líkt og smitsjúkdómur.

Helstu sjúkdómseinkenni sjúkdómsins eru bólgnar loppur og stundum fætur. Sár á þófum og tám oft við rót naglar. Bólgur og sár sjást einnig þar sem gangþófar og skinn mætast. Tær geta virst samvaxnar og geta loppur verið hárlausar við tær. Neglur geta afmyndaðst á seinni stigum sjúkdómsins. Sárin mynda sárskorpur og vill blæða þegar að minkarnir eru teknir. Átlyst dýranna minnkar eða hverfur en þó ekki í öllum tilfellum. Erfitt getur verið að sjá að nokkuð ami að dýrunum fyrr en sjúkdómurinn er fremur langt gegninn og því erfitt að varast hann.

Allir minkabændur á landinu hafa fengið upplýsingar um sjúkdóminn og hafa skoðað sín dýr m.t.t. til hans. Minkabændur eru meðvitaðir um þær aðgerðir sem þarf að grípa til gruni þá að sjúkdómurinn sé á þeirra búum. Einnig eru þeir meðvitaðir um að náið þarf að fylgjast með dýrunum til að koma auga á sjúkdóminn.

Bæði högnar og læður hafa sýnt einkenni sjúkdómsins hér á landi. Bæði er um að ræða innflutt og heimaalin dýr. Það sem gerir viðbröð við þessum sjúkdómi erfið er að lítið er vitað um hann og hvað veldur honum. Það er því mjög erfitt að setja fram hvaða aðgerðir væru bestar til að eiga við hann. Eins og staðan er í dag er mælt með tvennskonar aðgerðum sem bændur geta gripið til telji þeir að dýr sýni einkenni smitandi fótasára.
  1. Lóga öllum dýrum strax sem sýna einkenni sjúkdómsins hversu lítil sem að þau virðast.
  2. Meðhöndla dýr með einkenni sjúkdómsins.
Dýralæknir loðdýrasjúkdóma hjá Matvælastofnun hefur sent öllum minkabændum og starfandi dýralæknum  nauðsynlegar upplýsingar og tillögur að sérstakri  aðgerðaráætlun vegna sjúkdómsins.


Getum við bætt efni síðunnar?