Fara í efni

Skýrsla um veikindi hrossa á Kúludalsá

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í tilefni þess að Matvælastofnun fékk í hendur nýja skýrslu um veikindi hrossa á Kúludalsá telur stofnunin rétt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Skýrsluhöfundar eru sammála áliti Matvælastofnunar um að veikindi hrossa á Kúludalsá megi rekja til efnaskiptaröskunar sem lýst hefur verið á ensku undir heitunum „equine metabolic syndrome“ (EMS) eða „insulin resistence“ (IR).

Þrátt fyrir að sjúkdómurinn og þá einkum langvinn hófsperra sem er algengur fylgikvilli hafi verið þekktur lengi er honum fyrst lýst fræðilega árið 2002. Frá þeim tíma hafa miklar rannsóknir verið gerðar sem beinast að orsökum hans og afleiðingum. Nýlegar yfirlitsgreinar draga upp nokkuð skýra mynd af meingerðinni og helstu orsakaþáttum. Offita og þá einkum staðbundin fita í makka og ofan við taglrót eru mikilvægustu áhættuþættirnar ásamt takmarkaðri hreyfingu.

Sjúkdómurinn er, og hefur lengi verið vel þekktur í íslenska hestinum, bæði hér á landi og erlendis. Tíðni sjúkdómsins hefur þó ekki verið athuguð sérstaklega og því eru engar ritaðar heimildir að finna um faraldsfæðilega þætti. Ekki er mikið um að dýralæknar séu kvaddir í tilfelli af þessum toga þar sem oftast er um að ræða hross í lítilli sem engri notkun og eigendur kjósa alla jafna að aflífa hross eftir að einkenni hófsperru eru komin fram. Bæði dýralæknar og hrossaeigendur geta þó vitnað um að sjúkdómurinn er nokkuð algengur í hrossum sem hafa litlu hlutverki að gegna og bæði er þekkt að einstaka hross í hjörðum fái þessi einkenni en einnig kemur fyrir að stór hluti hjarðar eða hrossahóps sé með einkennin. Matvælastofnun berast reglulega ábendingar um vandamál af þessum toga og þeirra verður vart við reglubundið eftirlit með hrossahjörðum og í sláturhúsum. Út frá þeim óformlegu upplýsingum sem liggja fyrir um útbreiðslu sjúkdómsins er ekkert sem bendir til annars en að hann komi fyrir í öllum landshlutum og engin vísbending er um að hann sé algengari í Hvalfirði en annars staðar. Þá ber þess að geta að langvinn hófsperra í kjölfar EMS/IR er algengasta orsök þess að sænska tryggingafélagið Agria (sem er umsvifamikið í tryggingum hrossa í allri Skandinavíu) greiðir út tryggingabætur fyrir íslenska hesta.

Hafa ber í huga að efnaskiptaröskun sú sem hér um ræðir er í raun varanlegt ástand og læknast því ekki við breytingar á fóðrun þó þannig sé hægt að halda sjúkdómseinkennum niðri að einhverju leyti. Mikil hætta er á að aðgangur að auðleystum sykrum s.s. í grasi eða heyi kalli einkennin fram á ný þrátt fyrir að tekist hafi að grenna hrossið og hreyfing hafi verið aukin. Þetta skýrir misvísandi ályktanir Mast og skýrsluhöfunda. Árið 2011 leiddi skoðun Mast sannanlega í ljós að flest hrossanna voru of feit, en skýrsluhöfundar mátu sömu hross ekki mjög feit árið 2013. Því fer fjarri að hægt sé að útiloka offitu sem orsök veikinda hrossa á Kúludalsá eins og skýrsluhöfundar gera.

Við skoðun á hrossunum árið 2011 blasti við að helstu áættuþættir sem tengdir hafa verið EMS/IR voru til staðar og að verulegur hluti hrossanna bar klínísk einkenni sjúkdómsins. Krufning á þremur hrossum, sem eigandinn taldi með mest einkenni, styrkti það álit. Engin merki komu fram við rannsókn um þekkt einkenni flúoreitrunar þrátt fyrir að flúorgildi í beinum mældust nokkuð há en þess ber að geta að hvorki þolmörk né normalgildi flúors eru þekkt í beinum hrossa.  

Matvælastofnun andmælir því þeirri ályktun skýrsluhöfunda að nánast útilokað sé að rekja megi veikindi hrossanna á Kúludalsá til offóðrunar eða rangrar meðferðar og að orsök EMS/IR í hrossunum á Kúludalsá megi líklega rekja til flúormengunar. 


Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?