Fara í efni

Skýrsla um áhættugreiningu vegna garnaveiki í nautgripum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Gefin hefur verið út skýrsla um áhættugreiningu vegna garnaveiki í nautgripum. Hún er afrakstur nefndar sem skipuð var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þann 6. febrúar 2008 og falið að leggja mat á þá hættu sem nautgripum stafar af garnaveiki og leggja fram tillögur um varnaraðgerðir.

Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um orsök og eðli garnaveiki, greiningu og varnir. Einnig er fjallað um útbreiðslu veikinnar og afleiðingar. Lagt er fram mat á líkum á smitdreifingu, líkum á greiningu og afleiðingum veikinnar. Að lokum eru núverandi varnaraðgerðir metnar og settar fram tillögur um breytingar á þeim.

Nefndin álítur að bæta þurfi eftirlit með garnaveiki heima á búum og auka sýnatökur úr gripum sem lógað er heima vegna sjúkdóma eða vanþrifa. Hún leggur til að komið verði á fót sérstökum sjóði vegna rannsókna á sýnum sem tekin eru vegna gruns um garnaveiki og sýna úr skepnum sem lógað er heima.

Nefndin telur að eftirlit með garnaveiki í sláturhúsum þurfi líka að bæta. Lagt er til að fræðsla um sjúkdóminn sé aukin, og skráningu á sjúkdómum og rannsóknarniðurstöðum komið í betra horf. Að mati nefndarinnar þarf að gera reglur um flutning nautgripa skýrari. Við mat á áhættu vegna flutninga, ætti að leggja áherslu á heimildir um sjúkdómastöðu viðkomandi búa, sem og aðstæður og smitvarnaráðstafanir á þeim.


Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?