Fara í efni

Skylt verður að næringarmerkja matvæli

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 13. desember 2016 tekur sú regla gildi að skylt verður að næringarmerkja allar forpakkaðar matvörur, nema þær sem eru sérstaklega undanþegnar. Þetta er samkvæmt reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda.

Fram til 13. desember er eingöngu skylt að næringarmerkja ákveðnar matvörur s.s. matvörur með næringar- og heilsufullyrðingum og kjötvörur. Sífellt fleiri fyrirtæki eru þó farin að næringarmerkja sínar vörur m.a. til að vera búin að uppfylla kröfurnar 13. desember. Auk þess eru mörg þeirra að birta næringarupplýsingar á vefsíðum, matseðlum og víðar. Sú upplýsingagjöf er valfrjáls, en þarf í öllum tilfellum að uppfylla ákvæði um næringarupplýsingar í reglugerðum.

Reglurnar um næringarupplýsingar breyttust með reglugerð nr. 1294/2014. Nú er skylt að í næringarupplýsingum komi fram orka, fita, mettuð fita, kolvetni, sykurtegundir, prótein og salt. Einnig má gefa upp magn af vítamínum og steinefnum, og nokkrum öðrum efnum.

Til viðbótar má endurtaka ákveðnar næringarupplýsingar (Orku, eða orku, fitu, mettaða fitu, sykur og salt) framan á umbúðum.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?