Fara í efni

Skimun fyrir sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti á markaði 2020

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Matvælastofnun, í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitar-félaga, skipulögðu skimun fyrir algengum sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti á markaði, árið 2020.

Samonella greindist ekki í þeim sýnum, sem tekin voru af svína- og kjúklingakjöti og kampýlóbakter ekki í sýnum af kjúklingakjöti.  Niðurstöðunar gefa til kynna að fyrirbyggjandi ráðstafanir framleiðanda og eftirlit á fyrri stigum matvælakeðjunnar skilar neytendum öruggari afurðum. 

Shigatoxín myndandi E. coli  (STEC) greinist í nautgripa-og lambahakki og er það vísbending um að STEC sé hluti af náttúrulegri flóru nautgripa og sauðfjár.

Heilbrigðiseftirlitið á stærstu eftirlitssvæðunum sá um sýnatöku á svína- og kjúklingakjöti. Skimað var fyrir salmonellu í svína- og kjúklingakjöti annars vegar og kampýlóbakter í kjúklingakjöti hins vegar. Tilgangur sýnatökunnar  var að skima fyrir sjúkdómsvaldandi örverum í afurðum þegar neytandinn fær þær í hendur, og fór því sýnatakan fram í smásöluverslunum. Hvorki greindist salmonella né kampýlobakter í ófrosnu kjúklingakjöti og salmonella greindist ekki í svínakjöti.

Skimað var fyrir genum Shigatoxin myndandi E. coli (STEC) í lamba- og nautgripahakki. Eftirlitsmenn Matvælastofnunar tóku sýni hjá framleiðendum en heilbrigðiseftirlitið í verslunum og á veitingastöðum víðsvegar um land. Ástæða þótti til að kanna sérstaklega hver staðan væri í hakki og hamborgurum þar sem gera má ráð fyrir að hakk sé mengaðra en heilir vöðvar, þar sem örverur eru á yfirborði vöðva og dreifast um allt kjötið við hökkun. Hvert sýni samanstóð af einni pakkningu af hakki eða hamborgurum ýmist af innlendum eða erlendum uppruna, frosin eða fersk. Í um fjórðung sýna af nautgripakjöti greindist meinvirknigen STEC, en þar af ræktaðist E. Coli sem bar meinvirknigen í 10% sýnanna (10 sýnum). Í einu þeirra greindist E.coli O157 stofn. Fjallað er nánar um niðurstöðurnar í skýrslu um skimun fyrir sjúkdómsvaldandi bakteríum í kjöti á markaði 2020. 

Ítarefni

Súnur og sýklalyfjaónæmi - eftirlitsniðurstöður

The European Union One Health 2019 Zoonoses Report

Skimun á sjúkdómsvaldandi bakteríum í kjöti á markaði 2018 og 2019

Reglugerð nr. 1000/2018 um vöktun á sýklalyfjaþoli

Leiðbeiningar EFSA um sýnatökur vegna skimunar fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum (síða 27-29).


Getum við bætt efni síðunnar?