Fara í efni

Skimun á sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti á markaði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Matvælastofnun, í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, eru að kanna stöðuna á algengustu sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti á markaði. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sér um sýnatökuna og fer hún fram í smásölu.

Tekin eru sýni af  innlendu og erlendu kjöti á markaði þar sem skimað er fyrir:  

  • Salmonellu í svínakjöti
  • Kampýlóbakter og salmonellu í alifuglakjöti
  • Shigatoxin myndandi E. coli (STEC) í nautagripakjöti
  • Shigatoxín myndandi E. coli (STEC) í kjöti af sauðfé (lambakjöt og kjöt af fullorðnu fé)

Einnig er skimað fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli í alifugla- og svínakjöti en það eru E. coli bakteríur sem bera með sér gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum. Bakteríur sem bera þessi gen eru líklegri til að vera fjölónæmar. Evrópskar rannsóknir hafa leitt í ljós að tíðni ESBL/AmpC myndandi baktería er að aukast hratt í afurðagefandi dýrum í Evrópu. Þetta er mikið áhyggjuefni þar sem rannsóknir hafa gefið vísbendingu um að slíkar fjölónæmar bakteríur geta borist í gegnum afurðir í menn. Ónæmisgenin geta einnig borist í menn við beina snertingu við dýr, í gegnum umhverfið og milli manna.

Í tengslum við MS verkefni við Háskóla Íslands 2014-2015 voru tekin sýni úr umhverfi, saur nautgripa og sauðfjár og af kjöti og skimað var fyrir STEC í sýnunum með sameindarannsóknum (rauntíma PCR prófun). Markmið verkefnisins var uppsetning og prófun á aðferð til greiningar á STEC með rauntíma PCR prófunum. Slíkar aðferðir eru mun næmari en hefðbundnar ræktunaraðferðir.  Í ljós kom að gen þessara baktería finnast í saur nautgripa og sauðfjár hérlendis. Einnig greindust genin í kjöti og hrámjólk.  Það þótti því ástæða til að skoða hvort STEC finnist í kjöti af nautgripum og sauðfé á markaði.  Sýkingar í fólki af völdum STEC hafa verið  0-3 á ári hérlendis síðustu ár. 

Miklar forvarnir eru viðhafðar í kjúklingaeldi og svínaeldi hérlendis til að koma í veg fyrir að afurðir fari á markað sem sýkt geta neytendur af salmonellu og kampýlóbakter. Enn sem komið er, er krafist vottorða með erlendu kjöti og gerð er krafa um að kjöt hafi verið fryst í 30 daga. Frysting dregur úr hættu á kampýlóbaktersýkingum, þ.e. frystingin fækkar verulega fjölda kampýlóbakter í afurðinni sé hún þar til staðar á annað borð. Skimunin er gerð til að kanna árangurinn af þessum forvörnum og kanna stöðu á afurðum þegar neytandinn fær þær í hendur í verslunum, hvort heldur afurðirnar eru af innlendum eða erlendum uppruna.

Tekin verða 150 sýni af alifuglakjöti, 150 sýni af svínakjöti, 150 sýni af nautagripakjöti og 150 sýni af kjöti af sauðfé í matvöruverslunum. Pakkningar verða valdar af handahófi og þeim dreift jafnt yfir árið. Til að tryggja val af handahófi eru sýnin tekin úr mismunandi hillum og kælum milli mánaða. Uppruni sýnis hefur ekki áhrif á val sýna en skal vera lýsandi fyrir það sem er á markaði á hverjum stað á hverjum tíma.

Sýnataka og rannsóknir eru hafnar og munu fyrstu niðurstöður verða birtar fljótlega. Í lok árs verður síðan birt skýrsla með samantekt á niðurstöðum. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?