Fara í efni

Sjúkdómsvaldandi listería greindist ekki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í desember 2014 og 2015 tóku starfsmenn Matvælastofnunar sýni af matvælum tilbúnum til neyslu, til greiningar á sjúkdómsvaldandi listeríu (Listeria monocytogenes). Tekin voru sýni af reyktum og gröfnum fiski og ýmsum áleggstegundum. Bakterían greindist ekki í neinu sýnanna.

Listeriosis er heiti sjúkdómsins sem bakterían veldur og eru matvæli tilbúin til neyslu algengasta smitleiðin. Hópsýkingar af völdum þessarar bakteríu eru þó ekki algengar en sýkingin er alvarleg og dánartíðni er há meðal þeirra sem veikjast. Það eru einkum ónæmisbældir einstaklingar og fólk sem nær háum aldri sem getur sýkst. Einnig geta fóstur orðið fyrir skaða ef barnshafandi konur sýkjast af bakteríunni.

Tekin voru sýni úr 63 framleiðslulotum af reyktum og gröfnum fiski og ýmsum áleggstegundum s.s. skinku. Listeria monocytogenes greindist ekki í neinu sýnanna, en það er sú listeríutegund sem helst sýkir menn og dýr og sett hafa verið viðmið fyrir í reglugerð.  

Reglugerð um örverufræðilegar viðmiðanir fyrir matvæli tók gildi hér árið 2010.

Framleiðendur matvæla, sem tilbúin eru til neyslu, skulu reglulega taka sýni af framleiðslunni, sem og úr vinnsluumhverfi, til skimunar fyrir Listeria monocytogenes. Bakterían má ekki greinast í matvælum sem sérstaklega eru ætluð ungbörnum eða ætluð til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi. Í öðrum matvælum tilbúnum til neyslu má fjöldi baktería ekki fara yfir 100 per  gramm matvæla á geymslutímanum, þ.e. á líftíma vörunnar. Sjá nánar í leiðbeiningum Matvælastofnunar um reglugerð um örverufræðileg viðmið.

Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitafélaga munu á þessu ári gera úttekt á sýnatökum þeirra sem framleiða matvæli, tilbúin til neyslu. Verkefnið verður eitt af þeim eftirlitsverkefnum, sem farið verður í árinu. Kannað verður hvernig sýnatökum er háttað, hvort tekin séu umhverfissýni, sýni af matvælum í samræmi við kröfur reglugerðar nr. 135/2010 (EB/2073/2005) um örverufræðilegar viðmiðanir fyrir matvæli.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?