Fara í efni

Sauðfjárbændur - sýnatökur og smitvarnir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun vill minna sauðfjáreigendur á að láta taka sýni úr fullorðnu fé til riðuskimunar. Ef afföll verða á kindum þá er mikilvægt að hafa samband við héraðsdýralækni sem mun sjá til þess að sýnin séu tekin eða hann leiðbeinir við að senda hausa beint á Keldur. Sýnatökurnar og sendingarkostnaður í þessu samhengi er bændum að kostnaðarlausu.

Sýni úr öllu fullorðnu fé sem drepst eða er fellt af öðrum ástæðum en elli eða til fækkunar eru afar mikilvæg sýni til að reyna eins og kostur er að ná árangri í að útrýma riðu hér á landi. Aðgerðir til útrýmingar riðu hófust árið 1986 og hefur náðst verulegur árangur fram til þessa. Ef kind sýnir einkenni riðuveiki er eigendum og umráðamönnum sauðfjár skylt að tilkynna það héraðsdýralækni.

Á sýktum svæðum skal ekki hýsa aðkomufé né fóðra eða brynna því með heimafé, hvorki við fjárrag að hausti eða að vori né á öðrum tímum ársins. Ef hýsingin er óumflýjanleg með tilliti til velferðar fjárins skal ekki nota til þess fjárhús, hlöður eða fjós, heldur skal nota annan húsakost.

Smitvarnir

Smitefnið sem veldur riðu kallast príon prótín. Smitefnið er afar lífsseigt og skilst út með öllum vessum frá kindinni. Það getur borist á milli bæja t.d. með:

  • Lifandi kindum og kindahræjum
  • Áhöldum (t.d. rúningsklippum)
  • Landbúnaðartækjum
  • Heyi

Mikilvægt er að sauðfjáreigendur séu vakandi gagnvart smitvörnum:

  • Hreinn hlífðarfatnaður/vinnugalli
  • Hreinn skóbúnaður/stígvél
  • Reyna eftir bestu getu að þrífa og sótthreinsa öll áhöld, tæki og vinnufatnað/stígvél áður en farið er á milli bæja 

Til þess að sótthreinsa skófatnað og áhöld er best að nota efni sem innihalda klór t.d. Virkon S sótthreinsiefni.

Það er á ábyrgð hvers bónda að standa vörð um sitt bú – „Bóndi ver þitt bú“

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?