Fara í efni

Salt í matvælaframleiðslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Við eftirlit í matvælafyrirtæki í vetur uppgötvaði eftirlitsmaður Matvælastofnunar upplýsingablöð fyrir tvenns konar salt: Annars vegar nítrítsalt sem merkt var „food grade“ og hins vegar salt sem merkt var fyrir iðnað. Í kjölfarið hófst gagnaöflun til að komast að því hvort síðarnefnda saltið væri framleitt fyrir matvælaiðnað og hvort fólki stafaði hætta af því. 

Matvælastofnun sendi fyrirspurn til framleiðanda saltsins þar sem spurt var hvort saltið væri ætlað til notkunar í matvæli. Í svarinu kom fram að saltið væri ekki talið skaðlegt heilsu en ljóst er að ekki eru gerðar jafnstrangar kröfur við framleiðslu og geymslu á saltinu og að ekki eigi að nota það við framleiðslu matvæla.

   Samanburður á efnainnihaldi leiddi í ljós að lítill sem enginn munur var á salttegundunum. Saltið var með sambærilegan hreinleika og saltið sem ætlað var til matvælaframleiðslu: Saltmagn (NaCl) var 99,8% í saltinu fyrir matvælaframleiðslu en 99,6% í umræddu salti. Samkvæmt gæðastaðli (Codex) um salt segir að NaCl eigi að vera að minnsta kosti 97% og uppfylla báðar salttegundirnar staðalinn. Þá var magn kopars 0,1 mg/kg í nítrítsaltinu en 0,4 mg/kg í umræddu salti. Samkvæmt gæðaviðmiðunum má kopar ekki fara yfir 2,0 mg/kg. Ekki var mikill munur á magni annarra innihaldsefna. Vísbendingar benda ekki til þess að neytendum stafi bein hætta af neyslu saltsins en notkun salts í matvæli sem ekki er ætlað til matvælavinnslu er óásættanlegt að mati stofnunarinnar og ber að hætta notkun þess.

Innflytjandi og dreifingaraðili saltsins er Ölgerðin ehf. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins hefur saltið verið í notkun a.m.k. frá árinu 1998 og dreifingarlisti fyrir 2011 sýnir dreifingu til 91 fyrirtækja úr flestum greinum matvælaiðnaðarins.

Þegar Matvælastofnun nálgaðist fyrirtækið með þessar upplýsingar upplýsti fyrirtækið stofnuninni að innflutningur á saltinu yrði stöðvaður. Stofnunin krafðist þess að Ölgerðin ehf., sem flutti inn saltið, sendi bréf til kaupenda til að upplýsa þá um málið eins og lög um matvæli gera ráð fyrir. Ölgerðin upplýsti á þeim tíma að til væru vikubirgðir af saltinu og gerði Matvælastofnun ekki athugasemd við notkun þess svo lengi sem að kaupendur væru upplýstir og gerðu ekki athugasemd. Við eftirfylgni málsins af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem hefur eftirlit með fyrirtækinu, kom í ljós að Ölgerðin hafði aðeins tilkynnt hluta kaupenda um málið og í kjölfarið krafðist heilbrigðiseftirlitið að öllum kaupendum saltsins yrði tilkynnt um málavexti og er því nú lokið.

Þegar málið kom upp sendi Matvælastofnun heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna upplýsingar um málið m.a. með það að markmiði að hægt væri að fylgjast með því við matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlitsins og Matvælastofnunar að notað væri salt sem skilgreint er til notkunar í matvæli af framleiðanda saltsins. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna framkvæma á hverju ári nokkur eftirlitsverkefni og er fyrirhugað að skoða sérstaklega innra eftirlitskerfi matvælafyrirtækja á þessu ári. Af gefnu tilefni mun hluti af skoðuninni snúa að hráefnum sem notuð eru til matvælavinnslu, sem og að notkun aukefna og umbúða sem eru í beinni snertingu við matvæli séu í samræmi við góða framleiðsluhætti.


Getum við bætt efni síðunnar?