Fara í efni

Salmonellusýking

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 



Fyrir skömmu greindist salmonellusýking (S. typhimurium) í tveimur ungmennum frá kúabúi á Austurlandi. Ungmennin búa í Reykjavík, en voru í stuttri heimsókn.  Í kjölfarið voru tekin sýni úr kúnum á búinu. Salmonella typhimurium greindist í einu sýni en dæmigerð einkenni salmonellusýkingar greindust ekki í neinni af kúnum við skoðun héraðsdýralæknis. Sýnataka var endurtekin og þá reyndust öll sýni neikvæð, þ.e.a.s. salmonella greindist ekki. Þetta bendir til að smitið sé mjög lítið og vonir því bundnar við að það verði upprætt á skömmum tíma. Hreinlæti á búinu er gott. Fylgst verður náið með heilsufari gripanna og ráðstafanir gerðar til að hindra smitdreifingu. Frekari sýnatökur eru ráðgerðar til að fylgjast með stöðunni áður en takmörkunum verður aflétt af búinu. Salmonella hefur ekki greinst í hrámjólk frá búinu og ekki er talin  hætta af neyslu sölumjólkur, enda er hún öll gerilsneydd í mjólkurbúi.

Salmonellusýking er súna, þ.e.a.s. sýking sem borist getur milli dýra og manna. Til eru meira en tvöþúsund salmonellutegundir. Flestar tegundir valda sjúkdómum í fólki og dýrum. Algengasta einkenni salmonellusýkingar er niðurgangur. Í sumum tilvikum veldur salmonella alvarlegri einkennum, ekki síst hjá eldra fólki eða fólki með ónæmisbælingu. Bæði fólk og dýr geta verið smitberar án þess að fá sjúkdómseinkenni. Bakterían smitast með saur. Helstu smitleiðir fyrir fólk eru matvörur og vatn sem bakteríur hafa borist í.


Nánari upplýsingar veitir Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?