Fara í efni

Salmonella staðfest í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Staðfesting hefur komið frá Keldum og sýkladeild Landspítalans að hrossin sem voru í hagagöngu í girðingu við bæinn Norður Gröf á Kjalarnesi hafi sýkst af Salmonella typhimurium, eins og grunur lék á. Veikin kom upp 21. desember og hafa nú 23 hross af yfir 40 drepist af völdum sýkingarinnar, þrátt fyrir umönnun dýralækna og eigenda.

Ekki er vitað nákvæmlega hvernig sýkingin barst í hrossin en talið er að þau hafi smitast með því að drekka úr tjörnum sem eru innan girðingarinnar.


Rannsóknir á tildrögum þessarar sýkingar eru þegar hafnar og hafa meðal annars verið tekin sýni úr tjörnum og er endanlegrar niðurstöðu að vænta á næstu dögum. Með vatni verður smitleiðin mun auðveldari og smitmagnið meira sem getur skýrt út hversu heiftarlega hrossin veiktust.

Ekki er vitað til þess að sýkingin hafi borist í aðra hesta eða í menn, enda varúðarráðstafanir þar að lútandi verið gerðar.  

Öllum  hrossaeigendum er  bent á að tryggja að hestar þeirra hafi ávallt aðgang að heilnæmu fóðri og hreinu rennandi vatni.


Getum við bætt efni síðunnar?