Fara í efni

Salmonella í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Af og til koma upp alvarleg tilfelli salmonellusýkingar í hrossum hér á landi. Venjulega er um fá hross að ræða en stærri hópsýkingar hafa einnig átt sér stað, síðast í árslok 2008 þegar 38 hross veiktust á Kjalarnesi. Rétt greining og meðhöndlun getur verð afgerandi fyrir afdrif hrossanna.

Smitefni

Salmonella er gram-neikvæð staflaga þarmabaktería af flokki Enteriobacteriaceae.

Margar sermisgerðir hafa fundist í hrossum á heimsvísu en þeirra algengust er S. Typhimurium.

Einkenni

Salmonellusýking er oftast staðbundin í víðgirni (ristli) en getur líka lagt undir sig fleiri líffærakerfi. Oft er hún einkennalaus í hrossum. 

Einkennin og alvarleiki þeirra ráðast að miklu leyti af sermisgerðinni, þ.e. hversu sjúkdómsvaldandi viðkomandi sermisgerð er, smitmagninu (venjulega þarf mikið smit til að valda veikindum í hrossum) og mótstöðu hestsins sem aftur fer m.a. eftir álagi, mótefnum í blóði og aldri. Meiri líkur eru á að folöld verði veik en fullorðnir hestar.

Dæmigerð einkenni salmonellusýkingar í víðgirni eru kviðverkir (hrossasóttareinkenni), deyfð, lystarleysi og niðurgangur; mikill og þunnfljótandi. Hrossasóttareinkennin og deyfðin koma alla jafna fram nokkrum dögum áður en hrossið fær niðurgang en mjög breytilegt er hversu alvarleg einkennin eru. Stundum verður snögglega vart við niðurgang en í öðum tilfellum verður skíturinn smám saman blautari. Skíturinn er illa lyktandi, grænleitur eða svartur á lit. Önnur einkenni eru óeðlileg þarmahljóð (gashljómur, óeðlilega litlar þarmahreyfingar) og útblásinn kviður. Ekkert sérstakt finnst við skoðun í gegnum endaþarm en slímhúðin getur verið bólgin og viðkvæm. Í sumum tilfellum fá hrossin hita, en ekki alltaf.

Þegar salmonellubakteríur taka sér bólfestu í víðgirninu er mikil hætta á að eiturefni frá þeim (endótoxín) berist í blóðið. Eiturefnið losnar frá frumuvegg bakteríunnar þegar hún deyr og hefur áhrif á hjarta og æðakerfi sjúklingsins. Einkennin eru aukin hjartsláttartíðni og endurfyllingartími háræða, dökkrauð eða bláleit slímhúð og ofþornun. Hófsperra er mögulegur fylgikvilli salmonellusýkingar hjá hrossum vegna áhrifa frá eiturefninu.

Blóðeitrun af völdum salmonellusýkingar getur, einkum hjá folöldum, valdið liðbólgum í einum eða fleiri liðum og einnig lungnabólgu.

Smitleiðir

Sýkt dýr skilja bakteríuna út með skítnum og megin smitleiðin er því saurmengað fóður, vatn, auk óhreininda á innréttingum og búnaði. Sýktir fuglar, nagdýr og hestar geta verið mengunarvaldarnir. Greining á undirgerð bakteríunnar (stofnagreining) eykur líkur á að komast að hvaðan smitið er upprunnið.

Bráðveik hross skilja bakteríuna út í miklu magni en smám saman dregur úr fjölda baktería í skítnum uns þær hverfa. Ef bakteríuútskilnaður er viðvarandi, þrátt fyrir að ekki beri á einkennum, telst hrossið frískur smitberi. Talið er að meðhöndlun með sýklalyfjum auki líkurnar á að hross komist ekki að fullu yfir sýkinguna og verði smitberi.

Streita og álag s.s. flutningar, fóðurbreytingar, hátt þjálfunarstig, sýklalyfjameðhöndlun (röskun á normalflóru þarma), offita og aðrir sjúkdómar í þörmum eru dæmi um áhættuþætti sem auka hættuna á salmonellusýkingu og útskilnað á salmonellubakteríum með skít.

Meingerð

Salmonellubakterían er með margvíslega sjúkdómsvaldandi eiginleika. Í frumuveggnum eru „verkfæri“ sem hjálpa bakteríunni við að festa sig við frumur í slímhúð víðgirnisins og smjúga inn í þær. Salmonellan lifir og fjölgar sér bæði í þarmafrumum og hvítum blóðkornum. Hvítu blóðkornin gleypa bakteríuna og með þeim getur hún borist með blóðinu til annarra líffæra. Eiturefni sem bakterían seytir (enterotoxin) valda því að sölt og vatn leka úr blóðrásinni og inn í þarmana auk þess sem eiturefnin virkja staðbundna ónæmissvörun sem leiðir til frumudauða. Eiturefnin sem losna þegar bakterían deyr (endótoxínin) koma þarna einnig við sögu.

Súrefnisskortur vegna skemmda í háræðum og smásærra blóðtappa eykur á bólgur og frumuskemmdir í slímhúð þarmanna. Alvarlegustu skemmdirnar verða í botnlanga og víðgirni. Niðurgangur, sem einkennir sjúkdóminn, er afleiðing þess að verulega dregur úr uppsogi vökva í víðgirni á sama tíma og vökvi, sölt og prótein leka út vegna frumuskaða eins og að framan er rakið.

Greining

Bakteríuræktun frá skít eða líffærum er grundvöllur greiningarinnar. Meiri líkur eru á að bakterían ræktist úr skít snemma í sjúkdómsferlinu, þ.e. stuttu eftir að niðurgangur kemur fram.

Breytingar á blóðgildum s.s. lækkun á hvítum blóðkornum, natríum, klór og kalíum samhliða hækkun á köfnunarefni og lifrargildum, benda til bólgu í víðgirni sem getur verið vegna salmonellu eða annarra baktería.

Mismunagreining er niðurgangur af öðrum orsökum, t.d. bakteríunni Clostridium perferingens.

Sýnataka

Til bakteríuræktunar úr skít þarf minnst 25 g sýni úr endaþarmi á hverjum hesti. Þar sem útskilnaður á bakteríunni sveiflast er mælt með endurtekinni sýnatöku þrjá til fimm daga í röð. Ef grunur leikur á að hópur hrossa sé smitaður nægir að taka eitt sýni úr hverjum hesti til að ganga úr skugga um það. Niðurstöðurnar eiga þá við um hópinn. Sýnataka úr fóðri og umhverfi getur einnig verið gagnleg. Bakteríuræktun á blóði getur átt við ef grunur leikur á blóðeitrun.

Til að draga úr hættu á dreifingu smitsins í önnur dýr eða fólk, setur Matvælastofnun takmarkanir á hestahald (einangrun) þar sem bakterían hefur greinst og ákveður jafnframt hversu mörg neikvæð sýni þurfi að liggja fyrir til að aflétta þeim. 

Meðhöndlun

Mikilvægast er að viðhalda vökva- og saltjafnvægi á meðan niðurgangurinn gengur yfir. Við mjög alvarlegar bólgur í víðgirni og/eða blóðeitrun getur þurft að gefa blóðvökva í æð, einkum ef próteingildi í blóði verða mjög lág eða greinileg eitrunaráhrif koma fram í blóði. Við langvarandi veikindi þarf að gefa næringu í æð.

Forðast skal að gefa sýklalyf við sýkingum í meltingarvegi, hvort heldur sýkingin er af völdum salmonellu eða annarra smitefna, þar sem hætta er á að einkennin versni vegna neikvæðra áhrifa á normalflóru þarmanna. Normalflóran veitir sjúkdómsvaldandi bakteríum samkeppni, hindrar vöxt þeirra og er í raun helsta varnarkerfi líkamans gegn þeim. 

Ef grunur leikur á blóðeitrun eða salmonellusýkingu utan meltingarvegarins getur verið ástæða til að gefa sýklalyf. Þeir stofnar bakteríunnar sem greinst hafa hér á landi eru alla jafna næmir fyrir sýklalyfjum sem virka á gram-neikvæðar bakteríur.

Viðbrögð

Salmonellusýking er tilkynningarskyldur sjúkdómur. Grun um salmonellusýkingu í hrossum skal tilkynna til viðkomandi héraðsdýralæknis eða sérgreinadýralæknis hrossasjúkdóma.

Veika hesta, sem og aðra hesta sem geta hafa smitast, skal einangra frá öðrum hestum eins fljótt og auðið er. Allan hrossaskít sem kemur frá sýktum hrossum, sem og undirburð, skal meðhöndla samkvæmt tilmælum Matvælastofnunar. Þess skal gætt að stígvél, fatnaður og verkfæri sem notuð hafa verið við hirðingu sýktra hrossa komi ekki nálægt heilbrigðum dýrum. Matvælastofnun ákveður umfang aðgerða, þ.m.t. hvaða hestar, byggingar og beitilönd sæti einangrun eða öðrum takmörkunum og afléttir þeim þegar smithættan er gengin yfir. Lengd þessa tímabils fer eftir umfangi smitsins og árangri aðgerðanna.

Hreinsun hesthúsa og sótthreinsun

Hesthús og önnur rými sem hætta er á að séu megnuð af salmonellubakteríum skulu hreinsuð vel og síðan sótthreinsuð með sótthreinsiefnum sem hafa þekkta virkni gegn bakteríunni.


Getum við bætt efni síðunnar?