Fara í efni

Salmonella enteritidis greinist í fyrsta skipti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
  Staðfest hefur verið Salmonella Enteritidis úr jákvæðu stoksýni sem tekið var af svínaskrokki. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund salmonellu greinist í búfé hérlendis.
 
Salmonella Enteritidis getur valdið alvarlegum matarsýkingum í fólki. Litlar líkur eru þó á, að S. Enteritidis berist í fólk með svínakjöti enda fylgist Matvælastofnun með salmonellumengun í svínarækt og við svínaslátrun með þrenns konar sýnatökum:

  • Kjötsafasýnum þar sem fylgst er með mótefnum í kjötsafa gegn salmonellu allt árið.
  • Stroksýnum af skrokkum þar sem leitað er að salmonellu á yfirborði svínaskrokka við hverja slátrun.
  • Saursýnum þar sem leitað er að salmonellu einu sinni á ári á svínabúum í fyrsta flokki.


Tekin eru stroksýni af a.m.k. 10 sláturskrokkum frá hverju búi í hverri slátrun en fjöldi sýna fer eftir fjölda sláturgrísa. Ef jákvætt/jákvæð sýni greinist í hraðprófi, eru tekin sýni af öllum skrokkum frá viðkomandi búi í næstu slátrun og skrokkarnir geymdir þar til niðurstöður liggja fyrir. Ef stroksýni greinist jákvætt, er viðkomandi skrokkur stimplaður með heilbrigðisstimpli 2 og má aðeins fara á markað eftir hitameðhöndlun. Þannig er komið í veg fyrir að smitefnið geti borist í fólk því salmonella þolir ekki hitameðhöndlun.

Þetta eftirlitskerfi er sett upp með það að markmiði að vernda neytendur gegn hugsanlegum matarsýkingum sem borist gætu með svínakjöti. Hið mengaða kjöt sem hér um ræðir fór í hitameðhöndlun áður en það fór á markað og stafar neytendum ekki hætta af neyslu þess.


Getum við bætt efni síðunnar?