Fara í efni

Sakfelling vegna meðferðar á hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Síðastliðinn föstudag sakfelldi Héraðsdómur Suðurlands mann vegna brota á dýraverndunarlögum, lögum um búfjárhald og reglum um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa. Í sama máli var viðkomandi sakfelldur fyrir brot á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð um varnir gegn útbreiðslu smitandi búfjársjúkdóma í Rangárvallasýslu.


        
Upphaf þessa máls er að rekja til tilkynningar frá búfjáreftirlitsmanni til héraðsdýralæknis þann 7. febrúar 2008 um slæman aðbúnað og fóðrun hrossa á tiltekinni jörð í Árborg. Í framhaldi fór Matvælastofnun í eftirlit á tvo staði, viðkomandi jörð og í hesthús þar sem umráðamaður hrossanna hélt hross. Við eftirlitið var hluti hrossanna eða fjögur fullorðin hross og eitt folald metin samkvæmt holdstigun  á bilinu 1.5 (horað) - til 2.0 (verulega aflagður) en folaldið var metið á bilinu 1.0 (grindhorað) til 1,5 (horað). Matvælastofnun kærði málið síðan til lögreglu.

Rannsókn lögreglu leiddi til þess að ákært var fyrir grófa vanrækslu á aðbúnaði, umhirðu fjögra fullorðna hrossa auk folaldsins. Við meðferð málsins var hinsvegar einn liður ákærunnar felldur niður varðandi eitt hrossið.  Ákærði var sýknaður af ákæru varðandi eitt fullorðnu hrossanna vegna vafa um eignarhald og ábyrgð á því hrossi.  Eftir stóð að ákærði var sakfelldur vegna slæmrar meðferðar á folaldinu tveimur fullorðnum hrossum.

Samhliða var ákært fyrir heyflutninga um Þjórsárbrú og yfir í Ásahrepp þ.e. yfir smitvarnarlínu án leyfis landbúnaðarráðherra. Brotið var heimfært undir 6. gr. reglugerðar nr. 423/1979 um varnir gegn útbreiðslu smitandi búfjársjúkdóma í Rangárvallasýslu og 11. og 12. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Var ákærði einnig sakfelldur fyrir þetta brot.

Refsing ákærða vegna allra ofangreindra brota þótti hæfilega ákveðin 300.000 kr. sekt en til þess var litið að ákærði var nú í annað sinn sakfelldur fyrir slæma meðferð á hrossum.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?