Fara í efni

Sakfelldur fyrir illa meðferð á hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við eftirlit MAST s.l. vor kom í ljós mikið umhirðuleysi vegna þriggja hrossa á bæ í Húnaþingi vestra. Matvælastofnun kærði málið til lögreglunar vegna brota á lögum um dýravernd og reglugerð um aðbúnað hrossa.


  
Ákæruvaldið ákærði manninn annars vegar vegna vanfóðraðs og fótbrotins hests og svo vegna ofvaxinna hófa á tveimur öðrum hestum. Við málflutning fyrir héraðsdómi Norðurlands vitnuðu búfjáreftirlitsmaður og héraðsráðunautur að hluta til gegn mati héraðs-dýralæknis. Héraðsdýralæknir sagði einn hestinn mjög horaðan og taldi sennilegt að hann hafi verið fótbrotinn. Búfjáreftirlitsmaður taldi hestinn laskaðan á fæti en ólíklegt hafi verið að hann hafi verið fótbrotinn, þá væri hann aflagður en ekki komin að fótum fram. Héraðsráðunautur taldi hestinn slasaðan en hann hafi ekki skoðað hvað var að fætinum. Þá minntist hann þess ekki að hafa séð neitt athugavert við holdafar hestsins.

Búfjáreftirlitsmaður og héraðsráðunautur báru hinsvegar á sama veg og héraðsdýralæknir um ofvaxna hófa hinna hrossanna.

Undir rekstri málsins var dregin til baka ákæra vegna fótbrots hestsins. Niðurstaða um önnur ákæru atriði var sýkna vegna fóðurástands slasaða hestsins þar sem sönnun tókst ekki. Sakfellt var vegna ofvaxinna hófa hinna tveggja hrossanna. Maðurinn þurfti að greiða 50 þúsund krónur í sekt en málskostnaður féll á ríkið vegna þeirra atriða sem ekki var refsað fyrir.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?