Fara í efni

Ritur og lundar ekki með fuglaflensu

Töluvert hefur fundist af dauðum ritum og lundum að undanförnu. Öll sýni sem rannsökuð hafa verið á Tilraunastöð HÍ að Keldum hafa verið neikvæð m.t.t. fuglaflensu. Nú er talið ólíklegt að skæð fuglaflensa sé til staðar í villtum fuglum hér á landi.

Aðeins eitt tilfelli af skæðri fuglaflensu hefur greinst hér á landi á þessu ári, það var í stokkönd sem fannst dauð í mars. Mikið var um skæða fuglaflensu í vetur í Evrópu, m.a. á vetrarstöðvum íslenskra farfugla, en tilfellum hefur fækkað mjög að undanförnu. Starfshópur um fuglaflensu, sem í eru sérfræðingar á Matvælastofnun, Háskóla Íslands og Tilraunastöð HÍ að Keldum, metur reglulega líkur á að fuglaflensa berist til landsins með farfuglum og hættu á að hún berist í alifugla. Nú þegar allar tegundir farfugla eru komnar til landsins og fuglaflensa hefur ekki greinst í neinum af þeim sýnum sem rannsökuð hafa verið, eru að mati starfshópsins litlar líkur á að fuglaflensa sé til staðar í villtum fuglum hér á landi.

Matvælastofnun hefur áður upplýst um að henni hafi borist fjöldi tilkynninga um dauðar ritur. Fyrstu sýnin úr þeim voru neikvæð fyrir fuglaflensuveirum. Viðbótarsýni sem tekin voru, meðal annars líffærasýni, voru einnig öll neikvæð.

Undanfarna daga hafa Matvælastofnun einnig borist fjölmargar tilkynningar um mikinn dauða í lundum á suðvesturhluta landsins, mest við Faxaflóa. Tilraunastöð HÍ að Keldum hefur rannsakað sýni úr þeim og reyndust þau öll neikvæð m.t.t. fuglaflensu.

Á árinu hafa sýni verið rannsökuð á Keldum úr samtals 35 fuglum af 14 tegundum og hafa þau öll verið neikvæð nema sýnið úr stokköndinni eins og fyrr segir. Upplýsingar um öll sýni sem rannsökuð hafa verið allt frá haustinu 2021 má sjá á mælaborði Matvælastofnunar.

Þótt taldar séu litlar líkur á að skæðar fuglaflensuveirur séu í villtum fuglum hér á landi um þessar mundir, hvetur Matvælastofnun fuglaeigendur til að gæta sóttvarna til að verja fugla sína eins og kostur er gegn smiti frá villtum fuglum. Stofnunin biður einnig almenning um að halda áfram að tilkynna um fund á veikum og dauðum villtum fuglum. Tilkynningarnar eru mjög mikilvægur liður í vöktun á tilvist og útbreiðslu smits.


Getum við bætt efni síðunnar?