Fara í efni

Reglur um flutning yfir varnarlínur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun vekur athygli á að strangar reglur gilda um flutning á lifandi jórturdýrum, tækjum og ýmsum varningi yfir varnarlínur. Óheimilt er að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur, nema þegar um er að ræða endurnýjun bústofns vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma og/eða vegna búháttabreytinga og þá einungis með leyfi frá MAST. Sleppi sauðfé yfir varnarlínur skal því slátrað.

Óheimilt er að sameina hjarðir innan sýktra varnarhólfa nema með leyfi Matvælastofnunar.

Nautgripi og geitur má aðeins flytja til lífs yfir varnarlínur hafi farið fram sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra. 

Reglur um flutning á lifandi sauðfé

Landinu er skipt upp í 25 varnarsvæði. Vegna ólíkrar sjúkdómastöðu í þessum varnarsvæðum gilda mismunandi reglur um flutninga á lifandi fé frá og innan þessara svæða. Ef riðuveiki er staðfest á bæ er varnarsvæðið talið sýkt í 20 ár frá byrjun áramóta þess árs sem síðasta tilfelli er staðfest. Ósýkt varnarsvæði eru svæði þar sem riða hefur ekki greinst síðastliðin 20 ár. Líflambasölusvæði eru varnarhólf þar sem aldrei hefur greinst riða, og garnaveiki ekki greinst síðastliðin 10 ár.

Sýkt svæði

Þau varnarsvæði sem eru sýkt eru: 

 • Vatnsneshólf
 • Húna- og Skagahólf
 • Suðurfjarðahólf
 • Hreppa- Skeiða- og Flóahólf
 • Biskupstungnahólf

Allir flutningar á fé milli hjarða innan þessara svæða og frá þeim (yfir varnarlínur) eru bannaðir. Til að kaupa líffé inn á sýkt varnarsvæði þarf að sækja um leyfi til Matvælastofnunar.

Sé fé flutt án leyfis yfir varnarlínur eða á milli bæja innan sýktra svæða er fénu lógað og getur brotið varðað sekt. Línubrjótum er lógað og sýni tekin til riðurannsókna.

Annar flutningur

Einnig er óheimilt að flytja milli bæja innan sýktra svæða og áhættusvæða hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold nema með leyfi héraðsdýralæknis. Skilyrði fyrir slíku leyfi varðandi hey er að það sé allt í plöstuðum stórböggum eða rúllu og skilyrði fyrir þökur er að þær séu aðeins notaðar á svæðum þar sem sauðfé kemst ekki að. 

Þá er óheimilt að flytja ull á milli bæja nema með leyfi héraðsdýralæknis. 

Athugið að aðilar sem fara milli sóttvarnarsvæða, sýktra svæða, áhættusvæða eða ósýktra svæða, með tækjabúnað til landbúnaðarstarfa, s.s. fjárklippur, markatengur, lyfjadælur og annan tækjabúnað skulu fá leyfi héraðsdýralæknis og vottorð um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Þessi tæki og önnur sem óhreinkast af sauðfé á sýktum svæðum skulu sótthreinsuð samkvæmt fyrirmælum héraðsdýralæknis að lokinni notkun á hverjum stað/jörð.

Svæði sýkt að hluta

Varnarsvæði sem eru svæðisskipt vegna sjúkdómastöðu:

 • Tröllaskagahólf:
  - Sýkt svæði: Dalvíkurbyggð norðan Hámundarstaða
  - Ósýkt svæði: Önnur svæði í hólfinu
 • Landnámshólf:
  Sýkt svæði: Sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði og Árborg og Grafningur í Grímsnes- og Grafningshreppi
  - Ósýkt svæði: Önnur svæði í hólfinu
 • Skjálfandahólf:
  - Ósýkt svæði: Skútustaðahreppur, Engidalur og Lundarbrekka og bæir þar fyrir sunnan
  - Sýkt svæði: Önnur svæði í hólfinu

Fyrir þá hluta hólfanna sem teljast sýktir gilda sömu reglur og fyrir sýktu svæðin, samanber kafla hér að ofan. 

Garnaveiki

Aðrar reglur gilda fyrir garnaveiki en í stuttu máli má ekki flytja líffé eða tæki og tól frá garnaveikisvæðum þar sem bólusett er yfir á hrein svæði þar sem ekki er bólusett. Á þeim bæjum þar sem garnaveiki hefur verið staðfest taka í gildi ýmsar hömlur í 10 ár frá síðasta staðfesta tilfelli. 

Stöndum saman vörð um heilbrigði íslensks búfjár.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?