Fara í efni

Reglur um fæðubótarefni sem innihalda CBD

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Óheimilt er að flytja inn, dreifa eða markaðssetja fæðubótaefni sem innihalda CBD (kannabídíól). CBD er eitt af virku efnunum í kannabis og eru dæmi um að efnið sé notað í læknisfræðilegum tilgangi. Hérlendis er CBD innihaldsefni í lyfi með markaðsleyfi, en fyrir slíkar vörur gilda lyfjalög.

CBD olíur innihalda efnið kannabídíól sem er lyfjavirkt efni. Ef CBD olíur eru framleiddar sem fæðubótarefni þá gilda lög um matvæli nr. 93/1995. Samkvæmt 11. gr. laganna er óheimilt að flytja inn til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Innflutningur á CBD olíum, framleiddar sem fæðubótarefni, er því bannaður á grundvelli ofangreindra matvælalaga. 

Hins vegar er mögulegt að láta flokka vöru, sem framleidd er sem fæðubótarefni, ef innflytjandinn telur að það magn CBD í vörunni sem hann hyggst flytja inn, dreifa og/eða markaðssetja, falli ekki undir skilgreiningu á lyfi skv. lyfjalögum. Í því tilviki gildir einnig 11. gr. matvælalaga, en þar segir að leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf, þá er það Lyfjastofnunar að skera úr um það.

Ef fyrirtæki eða einstaklingur óskar þess að Lyfjastofnun skeri úr um hvort umrædd vara falli undir skilgreiningu á lyfi er hægt að senda vöruna til flokkunar hjá Lyfjastofnun. Áður en vara með þessu innihaldsefni er markaðssett hérlendis þarf innflytjandinn, dreifingaraðilinn eða framleiðandinn þá að sýna fram á, með flokkunarniðurstöðu frá Lyfjastofnun, að efni í vörunni falli ekki undir skilgreiningu á lyfi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?